Fréttir af aðalfundi Krulludeildar

Aðalfundur Krulludeildar var haldinn nú í vikunni. Tvær breytingar urðu á stjórn. Hallgrímur Valsson áfram formaður.

Aðalfundur Krulludeildar fór fram þriðjudaginn 12. maí og var nokkuð vel sóttur, hátt í tuttugu manns mættu. Fundurinn var hefðbundinn, farið yfir starfið og fjármálin á árinu 2008 og engar stórar breytingar eða stór tíðindi frá þessum fundi að segja. Góðar umræður fóru fram á fundinum og eftir hann um starfsemi deildarinnar. Tveir úr fráfarandi stjórn, þeir Eiríkur Bóasson og Ásgrímur Ágústsson, gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Í stað þeirra komu inn í stjórnina þau Svanfríður Sigurðardóttir og Svævar Sveinbjörnsson. Aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir. Hallgrímur Valsson var endurkjörinn formaður en aðrir í stjórn eru: Davíð Valsson, Gísli Kristinsson, Ólafur Hreinsson, Ólafur Númason, Svanfríður Sigurðardóttir og Sævar Sveinbjörnsson. Stjórnin mun síðan skipta með sér verkum á fyrsta fundi sínum. 

Ásgrímur og Eiríkur fá bestu þakkir fyrir störf að málefnum Krulludeildar nú þegar þeir hætta stjórnarstörfum. Þess má geta að Ásgrímur hefur unnið nánast óslitið fyrir félagið og allar deildir á ýmsan hátt í marga áratugi og verið félaginu ómetanlegur liðsmaður, enda var hann gerður að heiðursfélaga SA fyrir fáeinum árum. Hann var fyrst kjörinn til stjórnarsetu á vegum félagsins um eða upp úr 1980. Hann hefur setið í stjórn Krulludeildar frá 2001 sem ritari og tekið ófáar myndirnar af krullufólki, eins og reyndar öðrum iðkendum í félaginu. Ásgrímur fær sérstakar þakkir krullufólks nú á þessum tímamótum þegar hann hættir stjórnarsetu - þó vonandi njóti félagið hans enn um ókomin ár.

Tveir krullumenn voru síðan kjörnir í aðalstjórn SA á aðalfundi félagsins í gær, þeir Davíð Valsson, sem verið hefur í aðalstjórninni og gaf kost á sér áfram, og Jón Rögnvaldsson, sem áður hefur setið í aðalstjórn og gengur nú inn í hana aftur. Þess má jafnframt geta að Ólafur Hreinsson krullumaður, sem verið hefur formaður aðalstjórnar undanfarin tvö ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður og var Sigurður Sigurðsson kjörinn í hans stað - en sá hefur bæði orðið Íslandsmeistari í hokkí og krullu þótt nokkuð sé nú um liðið síðan hann sást síðast renna krullusteini.