Fréttabréf nóvember

Hér er að finna fréttabréf Listhlaupadeildar SA í nóvember. Við reynum með jöfnu milli bili að senda út fréttabréf frá þjálfurum og stjórn.

 

Nóvember 2007
Kæru foreldrar/forráðamenn iðkenda í Listhlaupadeild SA

Hér á eftir eru nokkrir punktar sem stjórn og þjálfarar vilja koma á framfæri. Sumt á við alla, annað einstaka flokka.  En ítrekum þó að aðalupplýsingaveituna er að finna á heimasíðu deildarinnar www.sasport.is Auk þess sem alltaf er hægt að koma með fyrirspurnir til þjálfara og stjórn, sjá netföng og símanúmer á heimasíðu deildarinnar. Lögð er áhersla á að í öllum tölvupóstsamskiptum komi fram efni bréfsins í subject (efni) línunni, til þess að auðvelda flokkun fyrirspurna.

Danstímar  fyrir 3.-6.flokk
Deildin hefur í samráði við Point dansstúdíó, áhuga á því að bjóða upp á danstíma fyrir iðkendur í 3. 4. 5. og 6. hóp. Ef af verður er um að ræða tvö 6 vikna námskeið, annað fyrir áramót og hitt eftir áramót. Danstími yrði einu sinni í viku hjá Point Dansstúdíói í Sunnuhlíð, á laugardagseftirmiðdögum. Því miður er ekki gert ráð fyrir þessum tímum í fjárhagsáætlun þessa skautaárs og því nauðsynlegt að greitt yrði fyrir námskeiðið. Vonir standa til þess í framtíðinni að bjóða upp á danstíma, sem hluta af afísþjálfun. Hvert námskeið myndi að öllum líkindum kosta kr. 3.800.- en fer þó nokkuð eftir fjölda þátttakenda. Miðað er við um 15-20 í hóp og yrði hópunum aldursskipt, ekki flokkaskipt líkt og á ísnum, fyrst um sinn. En Point dansstúdíó myndi e.t.v. skipta hópnum upp eftir áramót. Miðað við að tímarnir verði á laugardögum.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt sendið tölvupóst á netfangið: krikri@akmennt.is
fyrir 12. nóv. n.k. en vonast er til þess að fyrsti danstíminn geti orðið laugardaginn 17. Nóvember. 

 

Þjálfarar vilja minna iðkendur á að:

·         mæta tímanlega á æfingar (a.m.k. 20 mínútur fyrir ístíma) og láta vita með smsi í símanr. 8214258 ef þeir koma ekki

 

·         halda áfram að hita vel upp fyrir alla ístíma og teygja vel á helst eftir allar æfingar. Þetta getur fyrirbyggt meiðsl.

 

·         mæta ekki í hettupeysum á æfingar öryggisins vegna .

 

·         koma með vatnsbrúsa á ís og afísæfingar

 

·         nota ístímana eins vel og kostur er, þ.e. að byrja upphitun UM LEIÐ og stigið er á ísinn.

 

·         meðan á ís- og afísæfingum stendur skal EKKI spjalla

 

Jólasýning
Á næstu vikum fara hægt og rólega af stað æfingar fyrir jólasýninguna okkar, allir iðkendur fá bráðlega bréf heim með upplýsingum um búninga o.s.frv. Mikilvægt er að allir fylgist líka vel með heimasíðunni www.sasport.is.

 

Mót
Tvö mót eru framundan hjá okkur fyrir áramót. Fyrra mótið er Bikarmót og Haustmót sem haldið verður hér á Akureyri 23.-25. nóvember. Á þessu móti keppa iðkendur frá okkur í eftirtöldum keppnisflokkum: 14 ára og yngri B, 15 ára og eldri B, 12 ára og yngri A, Novice og Junior (iðkendur úr 4. 5. og 6. hópi).

Seinna mótið er Frostmót C keppenda. Það mót fer fram hér á Akureyri 2. desember. Þar keppa allir iðkendur í C flokki (sem æfa í 3. yngri og 3. eldri). Margir munu keppa þar í fyrsta sinn, en þetta mót er nokkurs konar upphitunarmót vetrarins fyrir C keppendur. 
 

 

Mikilvægt er að fara að huga að því að verða sér úti um keppniskjól og sokkabuxur fyrir stelpurnar og svartar buxur og skyrtu fyrir strákana. Hægt er að kaupa skautakjóla á netinu á ýmsum heimasíðum en einnig er hægt að fá skautakjóla í Everest í Reykjavík og einnig verður Point Dansstúdíó, sem eru með bæði æfinga og keppniskjóla og sokkabuxur í Sunnuhlíð. Ef ykkur vantar hjálp við að finna kjóla þá getið þið haft samband við Helgu þjálfara ( helgamargretclarke@gmail.com) eða ef þið þekkið iðkendur í eldri flokkunum getið þið haft samband beint við þá og fengið lánaða kjóla. Einnig verður skautakjólasala hjá listhlaupadeildinni bráðlega en þar gefst öllum kostur á að koma með gamla kjóla sem þeir vilja selja, verður auglýst síðar.

 

Fyrir foreldra barna sem keppa á mótum:

 

·         hefð er fyrir því að aðstandendur hendi einhverjum hlut inn á ísinn eftir dans stúlknanna s.s. bangsa, rós, lukkugripi, vettlinga o.s.frv. Foreldrafélagið stendur fyrir slíkri sölu til fjáröflunar á mótum.

 

·         Á mótum getur orðið mjög kalt í höllinni, áhorfendur eru hvattir til að klæða sig vel og taka með sér teppi og jafnvel sessu. Foreldrafélagið selur kaffiveitingar á staðnum til fjáröflunar

 

·         Endilega fjölmennið á mótin, það er mikill stuðningur fyrir iðkendur, en því miður hefur borið á því að fámennt hefur verið á mótum deildarinnar.

 

·         Keppnisröð á mótum er fyrirfram ákveðin. Þó geta tímasetningar færst til t.a.m. vegna forfalla iðkenda, því er mikilvægt að mæta tímanlega. Mótstjórn áskilur sér rétt til að flýta dagskrá um allt að klukkustund, það er þó sjaldgæft að við séum svo langt á undan áætlun. Þá geta líka orðið tafir af óviðráðanlegum orsökum. Við erum þó alltaf að læra og að verða nokkuð nösk á að tímasetningar standist.

 

Breytingar á upplýsingum

 

Nauðsynlegt er að uppfæra upplýsingar, s.s. heimilsföng, símanúmer eða tölvupóst til stjórnar, til þess að auðvelda boðskipti til foreldra/forráðamanna. Sendið uppfærðar upplýsingar á netfangið annagj@simnet.is

Samskipti við þjálfara
Þjálfarar og stjórn hvetja foreldra/forráðamenn til að hafa samskipti  í gegnum tölvupóst t.d. ef þeir vilja fá upplýsingar um framfarir barnsins síns eða ef eitthvað er óljóst, tölvupóstföng má finna í nýliðabæklingi og á heimsíðu deildarinnar www.sasport.is

Afrekshópur
Iðkendum afrekshóps gefst kostur á því að fá klósettpappír og eldhúsrúllur til sölu til fjáröflunar, sem eingöngu nýtist þeim einstaklingi sem selur, til niðurgreiðslu á kostnaði vegna afrekshóps, til ráðstöfunar að eigin vali. Verið er að sækja um styrki til ÍTA til niðurgreiðslu á kostnaði vegna þátttöku í afrekshópnum.

Fjáröflun
Miðvikudaginn 14. nóvember verður opið í fundarherbergi deildarinnar á annarri hæð kl:16:30-17:40, þar geta iðkendur nálgast perur sölu til fjáröflunar. Vonast er til þess að hver iðkandi selji a.m.k. 10 pakka. Um er að ræða ljósaperur, tíu stykki í pakka á kjaraverði. Endilega að hvetja iðkendur til að ganga í hús og selja sjálfir.

Fjáröflun - myndataka
Myndataka verður á næstunni þar sem teknar eru myndir af hverjum iðkenda, sem foreldrum gefst síðan kostur á að kaupa t.d. í formi ískápaseguls, músamottu og jólamerkimiða. Auk þess verða teknar myndir af hverjum hópi sem nýttar verða í jóladagatal. Vonast til þess að iðkendur komi í sínu fínasta skautapússi og með jólahúfu á hausnum. Ef einhver á fleiri en eina húfu, endilega koma með hana fyrir þá sem vantar.

Dagsetningar hópmyndatöku

1. Hópur – Miðvikudagurinn 14.nóvember á æfingartíma (16:30-17:10)
2. Hópur (gulur, rauður, grænn, blár) – Föstudaginn 16.nóvember á æfingartíma (16:30-17:10) 
3. Hópur eldri – Laugardaginn 24.nóvember kl 18:00
3. Hópur yngri – Laugardaginn 24. Nóvember kl:18:30
4. Hópur – Laugardaginn 24.nóvember kl:16:00
5. Hópur – Laugardaginn 24. Nóvember kl:16:30
6. Hópur – Laugardaginn 24. Nóvember kl:17:00

 

Einstaklingsmyndataka verður í stúdíói frá 12.nóv til 23. Nóv. Hver iðkandi fær miða heim með tímasetningum. Ef þær henta ekki er óskað eftir því að iðkendur skipti tíma innbyrgðis.

Búnaðargjald
Við minnum foreldra á að við sendum út greiðsluseðla vegna búnaðargjalds um áramótin kr. 6.000. Þeir sem vilja komast hjá því að greiða búnaðargjald endilega skráið ykkur á verkefni í netfangið oliverh@simnet.is fyrir áramótin. Ýmis verkefni eru í boði fyrir og eftir áramót, í stað búnaðargjalds. T.d. þarf aðstoð á komandi mótum s.s. þarf að hafa lækni eða hjúkrunarfræðing á staðnum, hliðavörslu, búningavörslu, upplýsingagjöf, aðstoð við aðkomufélögin o.s.frv. Þá þarf að selja skilti í höllinni, selja auglýsingu á skautapeysur. Aðstoða við myndatöku, næstu vikur. Mikla aðstoð þarf á jólsýningu ef einhver er hæfileikaríkur málari eða smiður þá vantar aðstoð við gerð leikmyndar. Þá vantar einhverja við búningagerð, hárgreiðslur, miðasölu, ljósamenn o.s.frv. Verkefnin eru óteljandi og okkur bráðvantar aðstoð til að komast yfir allt.

Mótsgjöld, dómaragjöld, greiðsla vegna fata og fleira
Ef verið er að greiða fyrir eitthvað hjá deildinni, muna að leggja inn sérstaklega fyrir hvern hlut og hafa skýringu við innlögnina, til að auðvelda úrvinnslu.

Föt og töskur
Skautatöskurnar eru nú þegar komnar í hús og hægt að fá nánari upplýsingar um þær á netfangið annagj@simnet.is Von er á skautafötunum um miðjan mánuðinn. Viljum fá þau sem allra fyrst.

Nýliðabæklingur
Þeir sem ekki hafa fengið nýliðabækling í hendurnar og óska eftir því að fá hann, vinsamlegast sendið póst á netfangið annagj@simnet.is

Þjálfarar
Stefnt er að því að þjálfarar fari á skyndihjálpanámskeið á næstunni, auk þess sem þjálfararnir fara á námskeið í uppeldis- og kennslufræði með grunnskóla- og leikskólakennara. En deildin leggur mikla áherslu á grunnmenntun þjálfara, sem og sí- og endurmenntun þeirra.

Hlið á skautasvelli
Um þessar mundir er verið að gera tilraunir með skautahliðin sem gengið er inn á til að fara á svellið. Ástæðan er að verið er að koma í veg fyrir þá slysahættu sem getur skapast séu hliðin á svellinu opin á æfingatíma. Hliðin skellast þó óþarflega mikið núna og er unnið að lagfæringu á því. Vinsamlegast brýnið fyrir börnunum að ganga varlega um hliðin.

Norðurlandamót í listhlaupi á skautum 2008 á Íslandi
Nordics 2008 verður haldið í Reykjavík - Íslandi, dagana 7-10 febrúar 2008. Stjórn ÍSS hefur beðið félög um að kanna hvort að skautarar og/eða foreldrar þeirra vilji aðstoða á NM 2008, við ýmis tilfallandi verkefni. Einnig óskar ÍSS sérstaklega eftirtalið:

„ÍSS þætti af því heiður ef skautarar í 8 ára og yngri A og 10 ára og yngri A, væru til í að aðstoða í Egilshöll, sem blómabörn. (Vera í keppnisfötum með vel greitt hár.) Föstud. – sunnudags. ÍSS þætti einnig af því heiður ef skautarar í 12 ára og yngri A, gætu aðstoðað á verðlaunaafhending sem fram fer í Egilshöll á sunnudeginum.  Hugmyndin er sú að skautarar séu í íslenskum þjóðbúningum, eða hátíðarbúningum – ef þeir eiga hann  eða geta orðið sér úti um slíkan fatnað.“

 Sé áhugi fyrir hendi þá vinsamlegast sendið nafn og símanúmer á netfangið
hildajana@gmail.com

Listhlaupadeild SA vonast til þess þegar að því kemur að bjóða upp á hópferð til Reykjavíkur, til að fylgjast með Norðurlandamótinu, en þar er einstakt tækifæri til að sjá skautara á heimsmælikvarða. Nánar auglýst síðar.

Enn og aftur minnum við á mikilvægi þess að fylgjast með heimasíðu félagsins www.sasport.is en þar koma fram allar mikilvægar upplýsingar, sérstaklega komi þær fram með stuttum fyrirvara.
F.h. Listhlaupadeildar Skautafélags Akureyrar

Hilda Jana Gísladóttir
hildajana@gmail.com
Formaður