Evrópumótið: Tap gegn Írum, Ísland í C-flokk

Írar reyndust sterkari á svellinu í dag. Íslendingar unnu tvo leiki en falla samt í C-flokk, enda í 26. sæti af 30 þjóðum.

Íslendingar töpuðu síðasta leik sínum í riðlakeppni í B-flokki Evrópumótsins nú í kvöld. Þar með er ljóst að Íslendingar eru ein þeirra sex þjóða sem falla niður í C-flokk á næsta ári en keppni í C-flokki fer fram í september, líklega á Ítalíu. Í okkar riðli eru það Íslendingar, Slóvakar og Hvít-Rússar sem fara niður í C-flokk og úr hinum riðlinum eru það Grikkland, Litháen og Serbía.

Írar náðu 3-0 forystu eftir tvær umferðir en Íslendingar skoruðu tvö í þriðju umferðinni en aftur unnu Írar tvær næstu umferðir og staðan 2-5 þegar leikurinn var hálfnaður. Írar héldu uppteknum hætti, bættu við tveimur stigum í sjöttu umferðinni og þremur í þeirri sjöundu, úrslitin 2-10.

 Ísland
 2
   
  x     2
 Írland2 1
 1
1
23 x
    10

Íslenska liðið getur unað vel við árangurinn miðað við þær væntingar sem liðsmenn gerðu fyrir mótið. Tveir sigrar eru líklega meira en flestir bjuggust við en hins vegar kom í ljós á mótinu að okkar menn hefðu allt eins getað unnið Belgíu, Króatíu og jafnvel Wales og Austurríki á góðum degi. Liðið lék mjög vel gegn Wales og vantaði mjög lítið upp á sigur. Á eðlilegum degi á liðið að eiga að minnsta kosti jafna möguleika gegn Króatíu og Belgíu. Nokkrir af andstæðingunum í riðlinum hafa einnig bent á að hinn riðillinn hafi verið veikari en um það er erfitt að dæma, hugsanlega hefði íslenska liðið átt möguleika á fleiri sigrum þar.

Úrslit einstakra leikja:

Ísland - Slóvakía   8-3
Ísland - Ungverjaland
 2-9
Ísland - Króatía 
 5-8
Ísland - Belgía
 4-8
Ísland - Hvíta Rússland
10-4
Ísland - Austurríki 
 5-11
Ísland - Wales
6-8
Ísland - Lettland
2-12
Ísland - Írland
2-10

Þrátt fyrir að liðið ynni aðeins tvo leiki af níu náði það engu að síður að vinna 33 umferðir í þessum níu leikjum en andstæðingarnir unnu 38 umferðir. Ef talið er saman skorið í öllum leikjum kemur í ljós að Ísland skoraði 44 steina en andstæðingar liðsins skoruðu 73 steina.

Af 30 þjóðum sem keppta í karlaflokki raðast Íslendingar í 26. sæti. Litháar urðu næstneðstir í hinum riðlinum, unnu jafnmarga leiki og Ísland en Íslendingar náðu betri árangri og raðast því ofar. Þar gilda skot sem öll lið taka fyrir hvern leik og reyna að hitta næst miðju. Eitt skot er tekið fyrir hvern leik og lélegasta skot hvers liðs dregið frá. Íslenska liðið hefur því lokið keppni á Evrópumótinu þetta árið og þarf að fara í C-keppni í september á næsta ári. Tvö efstu liðin í þeirri keppni vinna sér rétt til að keppa í B-flokki í Champery í Sviss í byrjun desember 2010.