Evrópumótið: Ísland 4, Belgía 8

Ekki gengu vonir íslenska liðsins um sigur gegn Belgum eftir í dag. Íslendingar töpuðu 4-8.

Okkar menn gerðu sér vonir fyrir leikinn um að vinna Belgíu og miðað við styrkleika liðanna var það alveg möguleiki, sigurinn gat dottið hvoru megin sem var en því miður lék íslenska liðið ekki nógu vel í dag auk þess sem nokkrum sinnum munaði sáralitlu að hlutirnir gengju upp. Íslendingar byrjuðu betur, settu "LSD" steininn næstum á punktinn (líklega vantaði um 10 sentímetra upp á) og síðan hófu þeir leikinn af krafti og "stálu" stigi í fyrstu og annarri umferð. Þá vöknuðu Belgar og unnu næstu tvær umferðir en íslenska liðið jafnaði 3-3 fyrir leikhlé. Eftir hléið virtist stuðið farið úr íslenska liðinu, of mörg skot fóru forgörðum og Belgarnir náðu að nýta sér mistök Íslendinga. Eftir níu umfeðrir var staðan 4-8 en Íslendingar neituðu að játa sig sigraða, reyndu hvað þeir gátu að ná fjórum stigum í lokaumferðinni en eins og í leiknum í gær voru þeir "outstoned", þurftu fjögur stig til að jafna en ekki nógu margir steinar eftir til þess.

Skorið í leiknum:

  Ísland
1
1
   1    1 x
 4
  Belgía
   2 1 2
1
2
  x 8

Næsti leikur er klukkan fjögur í dag en þá mæta Íslendingar Hvít-Rússum sem hafa tapað öllum leikjum sínum til þessa. Góðar vonir um að annar sigur liðsins líti loks dagsins ljós. Íslendingar eru núna í 8. sæti með einn sigur og þrjú töp, jafnir Slóvökum sem í morgun burstuðu Hvít-Rússana. Efstir í riðlinum eru Wales og Ungverjaland, bæði liðin með fjóra sigra og eitt tap.

Upplýsingar um mótið er að finna hér: www.ecc2009.co.uk.