EM eldri: Okkar menn í Greenacres

Fjórir krullumenn úr okkar röðum taka þátt í Evrópumóti eldri leikmanna þessa dagana.

Þeir Gísli Kristinsson, Jón S. Hansen, Kristján Þorkelsson og Árni Arason héldu utan núna í vikunni til Glasgow og síðan þaðan út í sveit í Greenacres krulluklúbbinn sem er í um hálftíma akstursfjarlægð frá Glasgow. Þar fer fram óopinbert Evrópumót í krullu leikmanna 50 ára og eldri, eða European Seniors Invitational Curling Championship.

Alls taka 18 lið frá 12 löndum þátt í keppninni í karlaflokki. Liðunum er skipt í þrjá riðla en síðan fara tvö efstu lið í hverjum riðli, ásamt tveimur bestu í þriðja sæti í fjórðungsúrslit.

Íslenska liðið hóf leik kl. 8 í morgun gegn liði frá Wales. Þegar þetta er skrifað (kl. 11.30) höfum við ekki fréttir af gangi leiksins.

Leikjadagskráin hjá okkar mönnum er svona:

Miðvikudagur
Kl. 8.30 gegn liði Chris Wells frá Wales
Kl. 14.00 gegn liði Rene Joller frá Sviss

Fimmtudagur
Kl. 10.30 gegn liði Per Carlsen frá Svíþjóð
Kl. 16.00 gegn liði Wim Neeleman frá Hollandi

Föstudagur
Kl. 10.45 gegn liði Gary McFarlane

Upplýsingar um mótið, úrslit og stöður má sjá á vefsíðu Greenacres krulluklúbbsins.

Þá má einnig geta þess að tvennt úr okkar röðum tekur um helgina þátt í Tårnby Cup í Danmörku, en þau Hannela Matthíasdóttir og Haraldur Inigólfsson ganga þá í lið með dönsku landsliðskonunni Camillu Jensen og svissnesku krullukonunni Jeannine Locher. Einhverjar upplýsingar um mótið koma væntanlega inn á heimasíðu danska klúbbsins.