Bréf til foreldra vegna Jólasýningar

Sjá lesa meira!

Kæru iðkendur og foreldrar!

Framundan er hin árlega jólasýning listhlaupadeildar Skautafélags Akureyrar.
Í þetta sinn verður sett upp sýningin Jólaævintýri Gosa og verður sýningin haldin miðvikudaginn 19. desember kl. 18 og er áætlað að sýning verði búin um kl. 20.

Iðkendur hafa unnið hörðum höndum síðustu vikur og vonumst við til þess að sjá sem flesta ☺

Allir eru velkomnir, foreldrar, afar, ömmur, systkini, vinir o.s.frv.
Miðinn kostar 750 kr. og er frítt fyrir 12 ára og yngri - ATH! EKKI ER TEKIÐ VIÐ GREIÐSLUKORTUM. Foreldrafélagið mun bjóða upp á kaffi, brauð og kökur gegn vægu gjaldi.

GENERALPRUFA verður mánudaginn 17. desember kl. 16:30 og er mikilvægt að allir iðkendur allra flokka mæti. Áætlað er að generalprufan verði búin ekki seinna en kl. 18.

Upplýsingar varðandi sýningardag fyrir alla hópa:

•    Allir iðkendur skulu mæta á slaginu 17:15 á sýningardag í búningum og að sjálfsögðu með skautana með sér.

•    Hver og einn hópur fær ákveðinn klefa og verða klefarnir merktir að utan með flokkanöfnum.

•    Iðkendur eldri flokka (4.-6. hóp) hafa nú þegar fengið upplýsingar varðandi sýningardag, þ.e.a.s hvenær hver og einn á að vera til, hvar á að fara inn á svellið o.s.frv.

Hér eru upplýsingar fyrir 1.-3. hóp

•    Mjög mikilvægt er að allir iðkendur fari inn í réttan klefa og bíði þar þar til þjálfarar þeirra koma til að merkja við og gefa upplýsingar.

•    Þeir sem sýna fyrir hlé (2. hópur gulur, rauður, grænn og blár) skulu vera tilbúnir í skautunum áður en sýning hefst, eða um kl. 17:45. Þegar þeir hafa sýnt sinn dans skulu þeir setja plasthlífar á blöðin (þeir sem ekki eiga geta keypt í Skíðaþjónustunni) og mega standa upp við ramma fyrir utan sinn klefa (gott að hafa hlýja úlpu með eða teppi). Í lok sýningar fara svo allir iðkendur út á ísinn og hneigja sig.

•    Þeir sem sýna eftir hlé (1. hópur, 3. yngri og 3. eldri) skulu líka mæta í sinn klefa og bíða þar eftir þjálfara sínum. Þegar þjálfari hefur merkt við börnin og gefið þeim upplýsingar mega þau skilja skautana sína eftir í klefanum og fara upp í stúku. Þeir koma svo í klefann aftur þegar hlé hefst og þá skulu þeir klæða sig í skauta og bíða í klefa (gott ef foreldrar/forráðamenn yngstu barnanna gætu fylgt börnum sínum í réttan klefa í hléi og hjálpað þeim í skautana). Þegar þeir hafa sýnt dansinn sinn skulu þeir setja plasthlífar á blöðin (þeir sem ekki eiga geta keypt í Skíðaþjónustunni) og mega standa upp við ramma fyrir utan sinn klefa (gott að hafa hlýja úlpu með eða teppi). Í lok sýningar fara svo allir iðkendur út á ísinn og hneigja sig.

Að lokinni sýningu hefst jólafrí hjá iðkendum! Æfingar hefjast svo samkvæmt tímatöflu aftur 2. janúar. Iðkendur í A og B keppnisflokkum (4.-6. hóp) skulu fylgjast með heimasíðu varðandi æfingar í jólafríi.

Ath! Allir iðkendur í 1. og 2. hópi hafa fengið miða með sér heim varðandi búninga. Ef einhver hefur ekki verið mættur þá er hægt að nálgast upplýsingar annað hvort með því að ræða við þjálfara barns eftir næstu æfingu eða kíkja á heimsíðuna okkar sasport.is og ýta á tengilinn listskautar. Aðrir iðkendur hafa fengið munnlegar upplýsingar varðandi búninga. Ef eitthvað er óljóst má alltaf hafa samband við Helgu Margréti yfirþjálfara (helgamargretclarke@gmail.com)


Hlökkum til að sjá ykkur á sýningunni