Af heimasíðu ÍSÍ

Óskað hefur verið eftir upplýsingum frá ÍHÍ vegna leiks Bjarnarins og SA sl. laugardag.

Í frétt á heimasíðu Íþrótta- og ólympíusambands Íslands segir eftirfarandi:

Á fundi framkvæmdastjórnar í gær, 3. nóvember, voru gerð að umtalsefni, átök sem urðu í íshokkíleik Bjarnarins og SA um síðustu helgi og sýnd hafa verið ítrekað í sjónvarpi. Atvikið og átökin er ekki góð ímynd eða auglýsing fyrir íþróttirnar og viðkomandi íþróttagrein.
Framvæmdastjórn ÍSÍ lítur þetta mál alvarlegum augum og telur sig það varða, með vísan til 4. gr. laga ÍSÍ um tilgang og markmið sambandsins, m.a. að tryggja að drengskapur ríki í íþróttum og ofbeldi sé bannað.
Úrskurður aganefndar ÍHÍ vakti og athygli í þessu samhengi.
Samþykkt var að senda bréf til Íshokkísambands Íslands og óska eftir upplýsingum um málið, agareglum sambandsins og öðrum vinnureglum í þessu sambandi.