2-0!!

Mynd: Sigurgeir Haraldsson (14.03.2014)
Mynd: Sigurgeir Haraldsson (14.03.2014)


Víkingar eru komnir í þá stöðu að geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla í þremur leikjum eftir glæsilegan sigur í Egilshöllinni í kvöld. Fimm mörk gegn engu á fimmtíu mínútum áður en Björninn komst á blað.

Víkingar fóru lengri leiðina til Reykjavíkur - þó ekki um Austur- og Suðurland. Þegar þeir lögðu af stað í morgun var Öxnadalsheiðin ófær svo tekin var ákvörðun um að fara um Tröllaskagann. Þegar komið var á Siglufjörð opnaðist heiðin. Segja má að Víkingar hafi uppskorið eins og þeir sáðu. Þeir lögðu á sig krók í morgun og voru lungann úr deginum á ferðalagi. Sá sem ætlar að sigra verður að leggja eitthvað á sig (samt ekki á Sigga Sig). Uppskeran var góð. Eftir sigur þrátt fyrir slakan leik á föstudagskvöldið, virðast Víkingar hafa girt sig í brók og unnu með fimm marka mun í kvöld.

Sigurður Reynisson skoraði tvö fyrstu mörk Víkinga, það fyrra eftir fimmtán mínútna leik og annað markið rétt um miðjan annan leikhluta. Jóhann Már Leifsson og Stefán Hrafnsson bættu við tveimur mörkum í öðrum leikhluta og Sigurður Sigurðsson skoraði fimmta mark Víkinga þegar tæpar 12 mínútur voru eftir af leiknum. Þá loks kom fyrsta mark Bjarnarins, þegar 10 mínútur voru eftir.

En eitt mark er ekki nóg þegar Víkingar komast á skrið því Andri Freyr Sverrisson skoraði sjötta mark liðsins á lokasekúndunum. Fimm marka sigur á Birninum staðreynd og Víkingar komnir í 2-0 í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

Leikurinn var ekki sýndur beint, en Reynir Sigurðsson var með í för eftir því sem fréttaritari kemst næst þannig að upptaka af leiknum ætti að verða aðgengileg á ishokki.tv þegar fram líða stundir.

Atvikalýsing (á vef ÍHÍ)

Mörk/stoðsendingar
Björninn
Thomas Nielsen 1/0
Lars Foder 0/1
Ólafur Björnsson 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 39

Víkingar
Sigurður Reynisson 2/0
Andri Freyr Sverrisson 1/0
Björn Már Jakobsson 0/2
Jóhann Már Leifsson 1/0
Stefán Hrafnsson 1/1
Sigurður Sigurðsson 1/0
Ben DiMarco 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Jón Benedikt Gíslason 0/1
Refsimínútur: 6
Varin skot: 34

Allir í höllina á þriðjudagskvöldið
Þessi úrslit þýða að með sigri í þriðja leik liðanna sem fram fer í Skautahöllinni á Akureyri þriðjudagskvöldið 18. mars geta Víkingar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. En Akureyringar ættu ekki að falla í þá gryfju að telja að titillinn sé í höfn. Liðið þarf að mæta til leiks og áhorfendur líka.

Eins og glögglega sannaðist í fyrsta leik liðanna er það stuðningur áhorfenda sem getur skipt sköpum og gríðarlega mikilvægt að fylla húsið á þriðjudagskvöldið og hjálpa félaginu þannig að verja Íslandsmeistaratitilinn.