15.12.2008
Upplýsingarblað sem iðkendur 1. 2. og 3. hóps fengu með sér heim miðvikudaginn 3. des.Kæru foreldrar/forráðamenn iðkenda í 1. 2. og 3. hóp!
Framundan hjá okkur er hin árlega jólahátíð listhlaupadeildar sem allir iðkendur deildarinnar taka þátt í.
Jólahátíðin í ár verður haldin sunnudaginn 21. desember frá kl. 17:15-20:15.
Generalprufa verður laugardaginn 20. desember milli 11 og 12. Mæting 10:45.
Jólasýningarnar verða að þessu sinni 2 og verður lítið jólaball á milli fyrir alla sýningargesti og iðkendur yngri flokka.
Dagskrá hátíðar:
Hátíðin hefst á sýningu yngri iðkenda Þegar Trölli stal jólunum (1. 2. 3. hópur) milli 17:15 og 18.
Jólaball verður milli 18 og 18:30 fyrir iðkendur yngri flokka og alla sýningargesti.
Hlé milli 18:30 og 19.
Sýning eldri iðkenda Jólafantasía (4. 5. 6. og 7. hópur) milli 19 og 20:15.
Foreldrafélagið verður á staðnum með veitingar á mjög vægu verði meðan á hátíð stendur. Minnum á að allur ágóði af sölu veitinga fer í að styrkja iðkendurna okkar. Munið að taka með ykkur pening þar sem við erum ekki með posa á staðnum ☺
Hlutverk og búningar yngri iðkenda:
1. hópur (Hópur Auðar og Sigrúnar): Snjókorn. Hvít föt, t.d. hvítar sokkabuxur og hvítur kjóll/pils og bolur/peysa eða hvítar leggings og hvítur bolur/peysa. Hluta af búningnum fá þau hjá okkur á sýningardag, hvítar herðarslár með skrauti og hvíta andlitsmálningu.
2. hópur Gulur (Hópur Ólafar og Karenar): Hjartadans, leika Trölla sem er með of lítið hjarta. Rauð föt, annað hvort rautt pils og bolur eða rauðar leggings, túberað og úfið hár ef hægt er. Þau fá hjá okkur hluta af búningnum, hjartasprota og grænt hársprey, vinsamlegast látið vita ef þau eru með ofnæmi.
2. hópur Rauður (Hópur Söndru og Gyðu): Hreindýradans. Vera í skrautlegum fötum og litríkum. Koma með hárspöng á æfingu annað hvort næsta föstudag eða í síðasta lagi miðvikudaginn næsta, muna að merkja spöngina með límmiða eða tússpenna svo að þær ruglist ekki. Þjálfarar föndra hreindýrahorn á spangirnar fyrir börnin, þau fá líka andlitsmálningu á sýningardaginn.
2. hópur Grænn (Hópur Guðnýjar og Berglindar): Jólasveinadans, leika Trölla sem fer í gervi jólasveins. Vera í jólasveinabúningum eða rauðum fötum með jólasveinahúfu. Fá græna andlitsmálningu hjá þjálfurum á sýningardag.
2. hópur Blár (Strákahópur og strákar úr 3. og 4. hóp): Löggudans. Vera í "löggulegum" búningum. T.d. svörtum buxum, blárri skyrtu og svörtum jakka með derhúfu og vasaljós, helst frekar stórt (muna að koma með vasaljósin á generalprufuna).
3. hópur (Allar stelpurnar, Jói með Bláa hópnum). Jólabörn. Vera í mjög litríkum og jólalegum fötum. Passa vel að vera ekki í fötum sem hefta hreyfigetu, t.d. síð og þröng pils eða gallabuxur. Vera með fallega greitt hárið, t.d. með stóra slaufu í hárinu. Búningar mega vera frekar ýktir. Koma með meðalstóran pappakassa pakkaðan inn í jólapappír með pakkabandi utan um (koma með á generalprufuna).
Kær kveðja,
þjálfarar ☺