Tveir ósigrar í 2. flokki

Þá hafa strákarnir okkar í 2. flokki lokið tveimur viðeignum fyrir sunnan gegn Birninum.  Í gærkvöldi urðu þeir að lúta í lægra haldi með 4 mörkum gegn 1, en eina markið okkar skoraði varnarmaðurinn Orri Blöndal.  Eitthvað skorti á agann hjá okkar mönnum og m.a. var Elmari Magnússyni vikið af leikvelli og sendur í steypibað eftir að hafa rifið kjaft við dómarann.  Elmar fékk hvorki meira né minna en Match penalty sem þýddi sjálfkrafa leikbann í leiknum í dag.  Bjarnarmenn voru ferskari aðilinn mest allan leikinn en þrátt fyrir nokkur ágætis marktækifæri okkar manna þá vildi pökkurinn ekki inn og Styrmir Snorrason í Bjarnarmarkinu átti góðan leik.  Það virðist þó vera tilhneiging okkar manna að vilja helst bera pökkinn alveg inní netmöskvanna í staðinn fyrir að láta skotin dynja á markinu.  Fleiri skot hefðu skila fleiri mörkum.

Leikurinn í dag var mun jafnari en því miður urðum við aftur að þola tap, nú með einu marki 4 – 3.  Staðan var jöfn eftir 2. leikhluta en eina markið í síðustu lotunni áttu Bjarnarmenn og tryggðu sér með því sigurinn.  Leikurinn var spennandi frá upphafi til enda og sigurinn hefði hæglega geta lent okkar megin með smá heppni.  Einar Valentine skoraði tvö mörk fyrir SA og Birkir Árnason eitt.