Tap gegn Slóvenum

Linda Brá Sveinsdóttir. Mynd: Elvar Freyr Pálsson.
Linda Brá Sveinsdóttir. Mynd: Elvar Freyr Pálsson.


Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí varð að játa sig sigrað í öðrum leik sínum í 2. deild B á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Skautahöllinni í Laugardal þessa dagana. Enn góðir möguleikar á verðlaunasæti.

Fyrirfram var slóvenska liðið álitið sterkasti mótherji okkar í þessu móti og miðað við leikinn mega stelpurnar nokkuð vel við una og ástæða til bjartsýni á góð úrslit í þeim leikjum sem eftir eru. Stefnan er sett á verðlaunasæti og það er vel raunhæft, jafnvel silfrið.

Linda Brá Sveinsdóttir skoraði fyrsta markið og kom íslenska liðinu yfir eftir tæplega þriggja mínútna leik. En þær slóvensku svöruðu með fimm mörkum, áður en Hrund Thorlacius náði að skora annað mark Íslands á lokasekúndunum. Lokatölurnar: Ísland - Slóvenía 2-5 (1-1, 0-1, 1-3).

Markvörðurinn Karitas Halldórsdóttir var valin besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum.

Mörk/stoðsendingar
Linda Brá Sveinsdóttir 1/0
Hrund Thorlacius 1/0
Sarah Smiley 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 27 

Leikskýrslan

Í kvöld er frí og hvíld fyrir næsta leik, en næstu mótherjar eru Króatar og verður sá leikur á fimmtudagskvöld kl. 20.

Nokkuð hefur verið fjallað um mótið og kvennalandsliðið á mbl.is og í Sjónvarpinu. Hér eru nokkrir tenglar:

Linda Brá í viðtali á mbl.is
Steinunn Erla í viðtali á mbl.is
Frétt á ruv.is um leikinn
Frétt á mbl.is um leikinn 

Fjallað var um HM og kvennalandsliðið í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi. Fyrst var reyndar utanríkisráðherra í 16 mínútur og 45 sekúndur - en svo komu stelpurnar og Ben.