Sex stiga helgi hjá SA

SA Víkingar og 3. Flokkur gerðu góða ferð í Laugardalinn um helgina þar sem bæði lið sigruðu í sínum leikjum með heildarmarkatölunni 10-0. SA Víkingar styrktu stöðu sína á toppi Hertz deildarinnar með 2-0 sigri á Esju en 3. flokkurinn vann SR 8-0 þar sem Gunnar Aðalgeir og Axel Snær skoruðu þrjú mörk hvor.  

Leikur SA Víkinga var sá síðasti í Hertz deild karla fyrir jólafrí og það má segja að svolítill jólabragur hafi verið á leiknum þrátt fyrir að um toppslag hafi verið að ræða. Leikurinn var mjög prúðmannlega leikinn og lítið um pústra en spilið var ágætt á köflum. Fyrsta lotann endaði markalaus en bæði lið fengu ágætis marktækifæri. SA Víkingar komust í 1-0 í byrjun annarar lotu í fallegri sókn sem Heiðar Örn Kristveigarson batt endahnútinn á og skoraði sitt 7. mark í deildinni. Heiðar Örn er aðeins 15 ára gamall og ætti með réttu að leika með 3. flokki. Hann fékk eldskírnina með meistaraflokki í byrjun tímabils og hefur ekki litið til baka síðan og verið áberandi í leik Víkinga í vetur en flestir ættu því að vita í dag hver er nr 9 er hjá SA en hann hefur sallað inn mörkunum og bætt sig með hverjum leik. Víkingar leiddu leikinn með þessu eina marki seint fram í síðustu lotuna en Esja fékk nokkur ágætis færi fram að því til að jafna leikinn en Steve í marki Víkinga var ósigranlegur. Mario Mjelleli kom Víkingum í 2-0 þremur mínútum fyrir leikslok þegar hann skaut föstu skoti út við stöng og gulltryggði þar með sigur Víkinga.

SA Víkingar eru þá komnir með 7 stiga forskot í deildinni sem verður að teljast nokkuð umfram þær væntingar sem gerðar voru til liðsins í byrjun tímabils. Liðið missti jú marga lykilleikmenn fyrir tímabilið en einnig hafa tíð meiðsli og önnur fjarvera leikmanna gert það að verkum að hópurinn hefur verið með einsdæmum þunnur í mörgum leikjum í vetur. Ungir leikmenn hafa stígið upp og fyllt þau skörð sem í liðið hafa verið höggvin og hafa gert það einstaklega vel. Næsti leikur SA Víkinga er 3. Janúar þegar liðið tekur á móti Birninum á heimavelli sínum í Skautahöllinni á Akureyri.

Mörk og stoðsendingar SA Víkinga:

Mario Mjell­eli 1/​1
Heiðar Örn Krist­veig­ar­son 1/​0
Jón B. Gísla­son 0/​2
Björn Már Jak­obs­son 0/​1