SA Víkingar tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni

Úr leiknum í kvöld (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leiknum í kvöld (mynd: Elvar Pálsson)

SA Víkingar lögðu SR nú fyrr í kvöld og tryggðu sér þar með farmiðann inn í úrslitakeppnina. Lokatölur leiksins voru 7-2 fyrir Víkingum en SR-ingar misstu með tapinu af möguleikanum á því að komast inn í úrslitakeppnina í ár. Hverjum Víkingar mæta í úrslitakeppninni á eftir að koma í ljós en Esja og Björninn berjast um sætið lausa.

Leikurinn í kvöld var hraður og skemmtilegur á að horfa en bæði lið komu fjúgandi inn í leikinn og fengu góð marktækifæri í upphafi leiks. Það voru SR-ingar sem skoruðu fyrsta markið í leiknum en þar var á ferð Baldur Líndal eftir harða sókn SR. Liðin sóttu á víxl eftir þetta þar sem bæði lið náðu löngum og góðum sóknarlotum en markverðir liðanna vörðu vel. Undir lok lotunnar jöfnuðu Víkingar metin með góðu marki frá Orra Blöndal í yfirtölu og liðin fóru jöfn inn í fyrsta leikhlé. Önnur lotann hófst eins og sú fyrsta þar sem liðin sóttu hratt og SR-ingar voru aftur fyrstir til þess að skora en þar var á ferðinni Markús Maack þegar hann sló inn frákast úr skoti Milan Mach. Skömmu síðar fengu SA Víkingar tveggja manna yfirtölu þegar SR-ingar voru sendir tveir í boxið fyrir brot á sama manni. Það tók Víkinga ekki langan tíma að nýta yfirtöluna en þá skoraði Jussi Sipponen laglegt mark og jafnaði leikinn. Það var svo rétt undir lok lotunnar sem Víkingar náðu forystu í fyrsta sinn í leiknum þegar Jón B. Gíslason náði að renna pekkinum í markið eftir frákast úr skoti Marios Mjelleli og SA komið í 3-2. Eitthvað dró af SR-ingum í þriðju lotunni en SA Víkingar riðu á vaðið og skoruðu hvert markið á fætur öðru og kafsigldu ráðalausa SR-inga. Fyrstu tvö mörkin skoraði Mario Mjelleli en Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði sjötta markið úr frákasti og Andri Mikaealson skoraði svo síðasta markið með góðu skoti í yfirtölu, lokatölur 7-2 SA Víkingum í vil.

SA Víkingar eiga heimaleik strax á þriðjudaginn þegar liðið fær Esju í heimsókn kl 19.30 í Skautahöllinni á Akureyri. 

Mörk og stoðsendingar SA Víkinga:

Mario Mjelleli 2/1

Andri Mikaelsson 1/3

Jón Benedikt Gíslason 1/2

Hafþór Sigrúnarsson 1/1

Jussi Sipponen 1/1

Orri Blöndal 1/0

Ingvar Þór Jónsson 0/3

Sigurður Reynisson 0/2