SA Víkingar með sterkan heimasigur gegn SR

SA Víkingar unnu í kvöld 6-1 sigur á SR í Hertz-deild karla. Leikurinn var frábær skemmtun og nóg af tilþrifum. SA Víkingar náðu þar með 9 stiga forskoti í Hertz-deilinni á Björninn/Fjölnir en gerða að sama skapi út um vonir SR um að komast í úrslitakeppnina.

Það var vel mætt á pallana í kvöld enda fjölmennt barnamót í Skautahöllinni yfir helgina og SR með flottann stuðningsmannahóp í stúkunni sem hvatti sitt lið til dáða. Leikurinn var bæði hraður og fjörugur frá fyrstu mínútu og ein skemmtilegasta byrjun leiks í Hertz-deildinni í vetur en til marks um það áttu liðin 30 markskot í fyrstu lotu en þar af áttu Víkingar 22 þeirra. Jóhann Björgvin landsliðsmarkvörður í liði SR var óþægur ljár í þúfu Víkinga í fyrstu lotunni en eina mark lotunnar skoraði Heiðar Krisveigarson fyrir SA Víkinga með glæsilegu einstaklingsframtaki. Önnur lotan var ekki síður skemmtileg en um miðja lotna jafnaði 15 ára ungstirnið Níels Hafsteinsson í liði SR leikinn með stórkostlegu skoti undir þverslánna og skoraði þar í öðrum leiknum sínum í röð gegn Víkingum. Það var vissulega þörf einhverju sérstöku til þess að kom pekkinum fram hjá Róberti í marki Víkinga en hann hefur komið sjóðandi heitur inn í mark Víkinga eftir áramót og átti enn einn stórleikinn í kvöld. Það tók Víkinga þó ekki langan tíma að jafna metin en  Ingvar Þór Jónsson sýndi enn og aftur að leikmenn þurfa ekki að vera fæddir löngu eftir aldamót til þess að skara fram úr í Hertz-deildinni nú um stundir en hann þrumaði pekkinum af bláu línunni og í markið og Víkingar aftur komnir með forystu. Strax í kjölfarið fékk Jóhann Leifsson sannkallað dauðafæri en var rændur af Jóhanni Björgvin í marki SR með markvörslu sem er án efa ein sú besta í deildinni í vetur. SA Víkingar héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt og greinilegt að dagurinn var ungu drengjanna þegar hinn 16 ára Dagur Jónasson kom Víkingum í 3-1 með sínu fyrsta marki í Hertz-deildinni. Markið var heldur ekki af verri gerðinni en hann skaut einhverri þrumusleggju þar sem pökkurinn sást aldrei en hljóðið benti til þess að pökkurinn hafi farið í þverslánna áður en hann fór í markið. SR fékk tvo refsidóma í röð undir lok lotunnar en sá síðari þegar 14 sekúndur lifðu lotunnar og Víkingar nýttu tímann til hins ýtrasta og náðu að skora á lokaflautinu þegar Sigurður Þorsteinsson tók skotsendingu af bláu línunni sem Jóhann Leifsson stýrði í markið og kom Víkingum í 4-1 fyrir síðustu lotuna. SR hélt sinni baráttu áfram í þriðju lotunni en ekki nóg til þess  að koma í veg fyrir sigur Víkinga sem bættu við tveimur laglegum mörkum frá Kristjáni Árnasyni og SA Víkingar lönduðu þar með gríðarlega sterkum 6-1 sigri í kvöld.

Með sigrinum gerðu SA Víkingar út um vonir SR um að komast í úrslitakeppnina og því ljóst að Víkingar og Björninn/Fjölnir munu mætast í úrslitakeppninni sem hefst í mars. SA Víkingar eru sem fyrr efstir í deildinni nú með 9 stiga forskot á Björninn/Fjölnir en þeir eiga einn leik til góða og ljóst að baráttan um heimaleikjaréttinn verður hörð. Víkingar eiga nú tvo útileiki í röð fyrst gegn SR og svo Birninum/Fjölni áður en þeir mæta Birninum/Fjölni á heimavelli þriðjudaginn 18. febrúar.