SA Víkingar leiða úrslitaeingvígið 2-0

Haffi fagnar marki (mynd: Gunnar Jónatans.)
Haffi fagnar marki (mynd: Gunnar Jónatans.)

SA Víkingar sigruðu Fjölni 3-1 í öðrum leik úrslitakeppninnar í íshokkí í Egilshöll í gærkvöld og leiða einvígið um Íslandsmeistaratitilinn 2-0. SA Liðin mætast í þriðja sinn á morgun á heimavelli í Skautahöllinni á Akureyri og geta Víkingar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn 2021 með sigri.

Gríðarlega sterkur sigur hjá SA Víkingum í gærkvöld þar sem Víkingar höfðu undirtökin í leiknum en Fjölnismenn börðust vel og fengu sína sénsa. Axel Orongan skoraði fyrsta mark leiksins byrjun annarar lotu með góðu skoti utan af velli og kom Víkingum í 1-0. Þannig var staðan eftir tvær lotur en Jakob Sigurðsson var gríðarlega öflugur í marki Víkinga eins og hann hefur verið í allan vetur og áttu Fjölnismenn í mestu vandræðum með að finna leið fram hjá honum. Jóhann Már Leifsson kom Víkingum svo í 2-0 í upphafi þriðju lotu með góðu skoti eftir undirbúning Andra Mikaelssonar. Fjölnir náði að minnka muninn þegar um 10 mínútur lifðu leiks en SA Víkingar héldu pekkinum vel í kjölfarið og gáfu þannig Fjölnismönnum fá tækifæri á því að setja mikla pressu á mark Víkinga. Fjölnismenn freistuðu þess að jafna leikinn með að bæta við sjötta útileikmanninum en SA Víkinga voru þéttir í vörninni og skoruðu að lokum í tómt markið en þar var að verki Unnar Rúnarsson eftir góðan undirbúning Axels Orongans. 

 Þriðji leikurinn fer fram á morgun í Skautahöllinni á Akureyri kl. 19:30. Miðasala í hurð opnar 45 mínútum fyrir leik en leikurinn verður einnig sýndur beint á SATV.