SA Víkingar Íslandsmeistarar 2021

Íslandsmeistarar 2021 (mynd: Þórir Tryggva.)
Íslandsmeistarar 2021 (mynd: Þórir Tryggva.)

SA Víkingar unnu í gærkvöld Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí í 22. sinn þegar liðið lagði Fjölni að velli í þriðja leik úrslitakeppni karla í íshokkí. Lokatölur leiksins 3-1 og SA Víkingar unnu úrslitakeppnina 3-0. Fullkomin endir á frábæru tímabili hjá SA Víkingum.

Það var uppselt í Skautahöllina í gærkvöld en sóttvarnarreglur takmörkuðu fjölda í stúku svo aðeins um 200 áhorfendur náðu inn en þeir fengu heldur betur skemmtun fyrir allan peninginn. SA Víkingar byrjuðu leikinn með sömu ákefð og hápressu sem einkennt hefur liðið í vetur og fengu úr því nokkur ákjósanleg marktækifæri strax á upphafs mínútum leiksins. Á 5. mínútu leiksins tók Jóhann Már Leifsson nokkur pökkinn til sín og hreinlega gekk í gegnum vörn Fjölnis og lagði pökkinn í markið á ótrúlega yfirvegaðan hátt og kom SA í forystu í leiknum og ekki í fyrsta skipti sem Jóhann tekur málin í sínar hendur þegar mikið er í húfi. SA Víkingar fengu svo strax í kjölfarið tvö algjör dauðafæri þar sem þeir hefðu getað komið sér í frábæra stöðu en Atli Valdimarsson í marki Fjölnis hélt liði sínu inn í leiknum og SA Víkingar fóru með 1-0 forystu inn í leikhlé. Önnur lotan varð alls ekki síðri en sú fyrsta og þrátt fyrir markaleysi í lotunni bauð hún uppá allt það besta sem hægt er að hugsa sér í hokkíleik þar sem bæði lið lögðu allt í sölurnar og frábær tilþrif sáust á báða bóga. Þriðja lotan var svo æsispennandi þar sem bæði lið fengu kjörin færi en markverðir beggja liða stóðu á haus eins og sagt er. Í lok leiks freistuðu Fjölnismenn þess að koma inn jöfnunarmarki með því að skipta út markverðinum og bæta inn sjötta sóknarmanninum en SA Víkingar voru fljótir að finna autt markið. Þar var að verki Axel Orongan sem kom Víkingum í 2-0 þegar rétt rúm mínúta lifði leiks og Jóhann Már Leifsson skoraði svo þriðja mark Víkinga og aftur í tómt markið aðeins 15 sekúndum síðar og gulltryggði SA Víkingum 3-0 sigri í leiknum og 3-0 sigri í úrslitakeppninni.

Úrslitakeppnin vel spiluð af báðum liðum en SA Víkingar sýndu meiri stöðugleika þar sem liðið átti varla lélega lotu í allri úrslitakeppninni. Íshokkímaður ársins, Jóhann Már Leifsson, og markahæsti leikmaður deildarkeppninnar, Axel Orongan, fóru fyrir Víkingum í markaskorun eins og von er vísa og skoruðu mörkin sem skildu liðin að. Markverðir beggja liða voru báðir stórkostlegir í úrslitakeppninni og er erfitt að færa rök fyrir öðru þeir hafi verið mikilvægustu leikmenn úrslitakeppninnar. Jakob Jóhannesson í marki Víkinga var með yfir 96 % markvörslu eða svo því sé komið á mannamál þá þurftu Fjölnismenn að skjóta yfir 26 skot á mark Víkinga fyrir hvert ætlað mark og fékk Jakob aðeins 2 mörk á sig í þremur leikjum í úrslitakeppninni og kórónaði svo leik sinn í gærkvöld með því að halda markinu hreinu þegar mest var undir.

SA Víkingar eru gríðarlega vel að titlinum komnir en liðið sigraði alla leiki nema einn í deildarkeppninni og voru með mikla yfirburði þar og unnu svo alla leik sína í úrslitakeppninni. Það má vel hrósa þjálfarateymi Víkinga þeim Rúnari Frey Rúnarssyni og Clark McCormick fyrir að ná að halda leikmönnum á tánum við erfiðar aðstæður á tímabili sem hefur litast af hörðum sóttvarnarreglum og æfingarbönnum. Leikmenn Víkinga sýndu mikinn aga og lögðu mikið á sig til þess að halda sér í leikformi og uppskera eftir því en greinilegt að liðið var í frábæru formi í úrslitakeppninni. SA Víkingar eru því Íslandsmeistarar árið 2021 og það í 22. sinn í meistaraflokki karla.