SA Víkingar grátlega nálægt sigri í síðasta leiknum í Evrópukeppninni

SA Víkingar fagna marki
SA Víkingar fagna marki

SA Víkingar töpuðu naumlega síðast leik sínum í Evrópukeppninni í gær gegn heimaliðinu Zeytingburnu Istanbul, lokatölur 3-4. SA Víkingar voru komnir í góða stöðu og leiddu leikinn 3-1 eftir aðra lotu en þrjú mörk Zeytinburnu í lokalotunni urðu okkur að falli. Egill Birgisson, Matthías Stefánsson og Andri Mikaelsson skoruðu mörk Víkinga í leiknum. SA Víkingar töpuðu því öllum þremur leikjum sínum í Evrópukeppninni og lentu í 4. sæti riðilsins. Crvena Svesda Berlgrade vann alla sína leiki og fer áfram í keppninni.

Þrátt fyrir töpin stóðu Víkingar sig vel á mótinu og gott betur en þeir stóðu vel í öllum mótherjunum og spiluðu fanta gott hokkí. SA Víkingar voru eina liðið í keppninni sem var einungis skipað heimamönnum og þar að auki með mjög ungt lið í keppni sem þessari, með 10 unglinga eins þeir voru kallaðir í frétt um mótið á heimasíðu alþjóða íshokkísambandsins. Það er frábært að svona margir ungir leikmenn hafi fengið tækifæri á stóra sviðinu og stóðu sig í raun framar vonum. Framtíðin er björt hjá þessu unga liði og verður spennandi að sjá hvernig liðið á eftir að reiða sig af í deildarkeppninni í vetur en fyrsti leikurinn í Hertz-deildinni er einmitt næskomandi laugardag þegar Víkingar taka á móti SR í Skautahöllinni á Akureyri.