SA með um þriðjung Íslandsmeistara og landsliðsfólks Akureyrar

Hópmynd úr hófinu
Hópmynd úr hófinu

Kjöri íþróttamanns Akureyrar var lýst í Menningarhúsinu Hofi síðastliðin miðvikudag. Íþróttamaður Skautafélags Akureyrar árið 2015, Emilía Rós Ómarsdóttir, varð fimmta í kjörinu. Skautafélagið á tæpan þriðjung landsliðsfólks akureyrskra íþróttafélaga og rúman þriðjung Íslandsmeistara. 

Kraftlyftingamaðurinn Viktor Samúelsson úr KFA er íþróttamaður Akureyrar árið 2015. Þorbergur Ingi Jónsson úr UFA varð annar og Bryndís Rún Hansen úr Sundfélaginu Óðni varð þriðja. 

Í verðlaunahófinu sem fram fór í Hofi voru afhentar viðurkenningar til þeirra íþróttafélaga sem áttu landsliðsfólk og/eða Íslandsmeistara á árinu 2015. Í tölfræði á þessu sviði ber Skautafélagið höfuð og herðar yfir önnur íþróttafélög. 

Alls áttu akureyrsk íþróttafélög 242 Íslandsmeistara á árinu, þar af voru 95 úr SA. Landsliðsmenn akureyrskra íþróttafélaga voru 102, þar af 30 frá SA.