SA með sigra í öllum leikjum helgarinnar

Jussi Sipponen átti góða helgi (mynd: Elvar P.)
Jussi Sipponen átti góða helgi (mynd: Elvar P.)

Öll þrjú lið SA sigruðu í leikjum sínum fyrstu keppnishelgina á Íslandsmótinu í íshokkí.

SA Víkingar sigruðu Björninn í Hertz-deild karla í Egilshöll í rafmögnuðum leik þar sem Víkingar voru þremur mörkum undir um miðjan leik en náðu að snúa leiknum sér í hag og unnu að lokum 8-7. Jussi Sipponen og Jordan Steger voru atkvæðamestir í liði Víkinga og skoruðu 3 mörk hvor.

Ynjur áttu ekki í erfiðleikum með sameiginlegt lið SR/Bjarnarins í Hertz-deild kvenna og unnu með 12 mörkum gegn 5. Ynjur áttu frábæran leik og voru alltaf skrefi á undan SR/Birninum en Sunna Björgvinsdóttir var áberandi í markaskorun að vanda en hún skoraði 5 mörk í leiknum.

3. flokkur SA vann svo 3-0 sigur á SR í Laugardalnum þar sem Róbert Hafberg skoraði 2 markanna.

Annað kvöld er svo fyrsti heimaleikurinn á Akureyri en þá taka SA Víkingar á móti ríkjandi meisturum í Esju í Skautahöllinni á Akureyri en leikurinn hefst kl 19.30