SA-Björninn í 3. flokki á laugardag


SA og Björninn mætast tvívegis í Skautahöllinni á Akureyri á morgun, laugardaginn 1. des. Leikirnir eru liðir í Íslandsmótinu í íshokkí. Almenningstími styttur vegna leikjanna.

Upphaflega átti að vera helgarmót hjá 3. flokki fyrr í mánuðinum en veður og færð - öllu heldur óveður og ófærð - hafa aðeins sett leikjadagskrá ÍHÍ úr skorðum og meðal annars var helgarmót 3. flokks fært til. Niðurstaðan að þessu sinni er þó ekki fullt helgarmót þar sem SR sá sér ekki fært að mæta með lið. Það verða því aðeins SA og Björninn sem mætast og munu liðin leika tvo leiki á morgun, laugardaginn 1. desember. 

Spilaður er fullur leiktími, 3x20 með stoppklukku og 5 mínútna upphitun. Fyrri leikurinn hefst kl. 16.15 og er áætlað að honum ljúki um kl. 18. Seinni leikurinn hefst kl. 19.35.

Vegna þessa verður styttri almenningstími á laugardag, opið verður kl. 13-16, ekki 13-17 eins og venjulega.