S.A.

SA strákar í íshokkískóla í Kanada

 

 SA strákar í íshokkískóla í Kanada

 

 

 

 

 

10 drengir á aldrinum 12-16 ára, sem hafa verið að æfa íshokkí hjá Skautafélagi Akureyrar, fóru í langferð alla leið til Ontario í Kanada í sumarbúðir með áherslu á íshokkí og vatnasport. Hópurinn kom heim í gær sunnudag eftir viku ævintýraferð og þjálfun í landi þar sem íshokkí er langvinsælasta íþróttin. Undirbúningur fyrir ferðina stóð í einhverja mánuði en drengirnir skemmtu sér vel í fjölbreyttri og vel skipulagðri dagskrá og vikan var fljót að líða.

 

 

 

 

Ferðalagið var langt og strangt í skólann Hockey Opportunity Camp (www.learnhockey.com) sem er staðsettur 3 tíma akstur norður af Toronto. Fyrst var flogið til Halifax og þaðan til Toronto þar sem hópurinn stoppaði í tvo daga til þess að skoða sig um, skemmta sér í stærsta skemmtigarði í Kanada, Canadas Wonderland og síðast en ekki síst til þess að versla hokkíbúnað, sem er á mjög góðu verði þarna. Ábyggilegt er að fáir hafa upplifað það að versla í sömu búðinni í dágóða stund, skreppa út í matarhlé og halda síðan áfram að versla fram eftir degi! Enda voru strákarnir alveg búnir að fá nóg þegar yfir lauk og einhverjum þúsundköllum fátækari.

 

 

 

 

Síðan tók við akstur norður á bóginn og stíf dagskrá í 6 daga.  Drengirnir voru 2 tíma á ís á hverjum degi og höfðu síðan val um ýmsar aðrar íþróttir 3-4 á hverjum degi.  Vinsælastar voru  vatnaíþróttirnar s.s. sjóskíði og köfun en einnig bogfimi, fjallahjól og fleira. Íshokkíþjálfunin var mjög góð og strákarnir stóðu sig vel, gáfu þeim kanadísku ekkert eftir í úthaldi eða færni með pökkinn. Létu þeir afar vel af þjálfurunum og þeim æfingum sem lagðar voru fyrir þá.  Við ferðalok voru þeir flestir sammála um að reyna að komast aftur næsta sumar og helst vera lengur.  Það sem stendur upp úr hjá fararstjórunum eftir ferðina er hvað drengirnir komu vel fram og að þeir vöktu athygli fyrir prúðmannlega framkomu og kurteisi hvar sem þeir komu. Sannanlega góðir fulltrúar íþróttarinnar og Íslands á ferðinni þar.

Myndir koma inn síðar...ÁFRAM S.A.!!!!