Minningarorð um Guðmund Pétursson.

Í júní síðast liðnum lést Guðmundur Pétursson, eða Kubbi, eins og hann var oftast kallaður. Kubbi var virkur félagsmaður frá barnsaldri og var gerður að heiðursfélaga Skautafélagsins árið 1997.

Hann fæddist í Innbænum árið 1940 þar sem hann átti sín æsku- og ungdómsár og byrjaði snemma að renna sér á skautum líkt og Innbæinga er siður.

 Hann hefur allra manna lengst setið í formannsstóli SA, frá 75-76 og aftur frá 79 – 89.  Lengi vel bar hann félagið á herðum sér og barðist fyrir rekstri og viðhaldi skautasvæðanna hér í bænum. Sá hann þá bæði um samskipti við íþrótta- og bæjaryfirvöld auk þess sem hann skilaði ómældri vinnu við uppbyggingu og viðhald svæðanna.

Hann hefur einnig verið manna ötulastur við að halda utan um sögu félagsins og var m.a. formaður ritnefndar við útgáfu bókarinnar um sögu félagsins sem Jón Hjaltason skrifaði og Skautafélagið gaf út árið 1998. 

Auk þess að hafa bæði spilað íshokkí og blak og stundað hraðhlaup með Skautafélaginu hér á árum áður þá fór Kubbi við annan mann, fyrstur Íslendinga, erlendis á dómaranámskeið fyrir íshokkí.  Í framhaldinu dæmdi Guðmundur flesta leiki sem spilaði voru hérlendis.  Síðari ár stundaði hann krullu af nokkru kappi en hann kom ásamt öðrum að stofnun krulludeildarinnar sem og að stofnun blakdeildarinnar sem hélt úti æfingum um árabil.

Kubbi var formaður Skautanefndar ÍSÍ sem kom á fyrsta Íslandsmótinu í íshokkí þar sem þrjú lið tóku þátt árið 1991 og síðar varð hann fyrsti varaformaður Skautasambands Íslands þegar það var stofnað árið 1995.  Hann hlaut gullmerki Íþróttasamband Íslands árið 1990 og árið 2010 veitti Íþróttaráð Akureyrar honum viðurkenningu fyrir framlag hans til íþróttamála á Akureyri.

Kubbi var alla tíð mikill skautafélagsmaður og fylgist vel með starfsemi félagsins og alveg sérstaklega með úrslitum íshokkíleikja.  Í seinni tíð, eftir að heimsóknum í Skautahöllina fór að fækka, þá átti hann það til að hringja í undirritaðan í byrjun tímabils og fyrir úrslitakeppnirnar og taka stutt símtal um stöðu mála.  Keppnisskapið var mikið og SA hjartað stórt og því reyndu íshokkíleikirnir mikið á taugarnar.

Það var sérstaklega ánægjulegt að Kubbi gat heiðrað okkur með nærveru sinni á 80 ára afmæli félagsins fyrr á þessu ári og upplifa hátíðina í kringum heimsmeistaramót kvenna sem haldið var hér í Skautahöllinni í febrúar. Það verður ekki hjá því komist að velta því fyrir sér hversu stóran þátt hann Kubbi á í því hvernig við stöndum að vígi í dag en það er fyrst og fremst fyrir atorku og dugnað félagsfólks eins og hans, sem við höfum komist í gegnum erfiða tíma og haldið áfram starfsemi Skautafélags Akureyrar. 

Við tökum því ofan hjálmana og kveðjum Kubba með virðingu og þökk fyrir samstarfið og öll handtökin sem unnin voru í þágu félagsins okkar og íþróttanna sem hér eru stundaðar. Fyrir hönd Skautafélags Akureyrar vil ég votta eftirlifandi eiginkonu hans og fjölskyldu, innilegar samúðarkveðjur. 

Sigurður Sveinn Sigurðsson