Kvennalið SA Íslandsmeistarar 2019

SA Íslandsmeistarar 2019 (mynd: Elvar P.)
SA Íslandsmeistarar 2019 (mynd: Elvar P.)

Kvennalið SA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli í gærkvöld þegar liðið lagið Reykjavík með 7 mörkum gegn engu í öðrum leik úrslitakeppninnar. Frábært tímabil að baki hjá SA liðinu sem vann alla 14 leiki sína í deildar- og úrslitakeppninni. 

SA mætti með sitt sterkasta lið í gærkvöld en þó án þjálfara liðsins honum Jussi sem gat ekki verið á staðnum vegna annarra verkefna og hans í stað stýrði hin gamalreynda Hulda Sigurðardóttir. Bæði liðin fengu ágætt tækifæri til þess að skora í fyrstu lotu en markverðir liðanna voru mættir til leiks og vel það. Silvía  Björgvinsdóttir fann þó leiðina í markið og koma SA í 1-0 undir lok fyrstu lotu en jafnræði hafði verið með liðunum fram að því. Áframhaldandi jafnræði var í marktækifærum liðanna í byrjun annarar lotu en Hilma Bergsdóttir kom SA í 2-0 með skrautlegu marki snemma lotunnar. Silvía bætti við marki um miðja lotuna og Sunna Björgvinsdóttir kom SA í 4-0 þegar hún lék laglega á markvörð Reykjavíkur eftir góðan undirbúnin Silvíu og staðan 4-0 fyrir síðustu lotuna. Þriðja lotan var nánast formsatriði en SA liðið lék við hvern sinn fingur og bætti við þremur mörkum í lotunni þar sem Silvía skoraði tvö til viðbótar og Eva Karlvesdóttir eitt. SA tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn eftir nánast fumlaust tímabil.

SA vann alla 14 leiki sína í vetur og flesta þeirra með nokkrum yfirburðum. Það var vitað mál að liðið yrði sterkt fyrir tímabilið þar sem Ynjur og Ásynjur sameinuðust fyrir tímabilið en yfirburðirnir í vetur hafa þó verið með ólíkindum. Reykjavík mætti með 4 línur til leiks í fyrsta leik tímabilsins en síðan þá hefur kvarnast úr hópnum og hafa varla náð fullskipuðu liði frá fyrsta leik. Það má þó segja að Reykjavík hafi náð að brúa bilið milli liðanna eftir því sem leið á tímabilið, leikur liðsins batnaði og margir leikmenn liðsins tóku framförum á tímabilinu. SA liðið hefur þó þrátt fyrir ungan aldur verið ógnarsterkt allt tímabilið þar sem fá veika hleki hefur verið að finna og líklega eitt sterkasta kvennalið sem spilað hefur í deildinni hin síðari ár. Því til sönnunar má telja árangur liðsins í æfingaferð sinni í febrúar þar sem liðið sigraði eitt af toppliðum 1. deildarinnar í Svíþjóð og var sterkari aðlilinn gegn tveimur öðrum liðum í sömu deild. 

Bestu leikmenn tímabilsins voru heiðraðir í lok leiks en Silvía Björgvinsdóttir fékk verðlaun fyrir að vera bæði besti sóknarmaður tímabilsins sem og stigahæsti leikmaðurinn. Saga Margrét Sigurðardóttir var valin besti varnarmaður tímabilsins og Karítas Halldórsdóttir markvörur Reykjavíkur var bæði besti markvörður tímabilsins sem og mikilvægasti leikmaðurinn. Til hamingju SA með 18 Íslandsmeistaratitilinn!