Karfan er tóm.
í liðinni viku var tilkynnt um íþróttafólk hokkídeildar árið 2025, það eru þau Silvía Rán Björgvinsdóttir og Unnar Hafberg Rúnarsson sem eru vel að titlinum komin. Elísabet Ásgrímsdóttir formaður deildarinnar færði þeim verðlaun og blóm af tilefninu. Það var kátt í höllinni á þessum viðburði en í kjölfarið hófst jólaball yngri flokka, þangað mæta leikmenn meistaraflokka og fyrirmyndir yngri iðkendanna, dansa kringum jólatréð og skauta með krökkunum og foreldrafélagið býður upp á veitingar.
Íþróttakona hokkídeildar
Silvía Rán Björgvinsdóttir er 26 ára uppalin hjá Skautafélagi Akureyrar. Hún sýndi fljótt hvað í henni bjó eftir að hún reimaði á sig hokkískautana og varð snemma ein af lykilmönnum í sínu liði. Silvía hefur spilað bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð en hún var fyrst íslenskra kvenna að spila í sænsku úrvalsdeildinni. Eftir að hún sneri heim frá Svíþjóð fyrir um tveimur árum hefur hún spilað með kvennaliði SA og haft mikil áhrif á liðið og leikmenn þess. Hún hefur þjálfað hjá félaginu bæði mfl kvenna og U16 auk þess sem hún er aðstoðarþálfari U18 kvennalandsliðs Íslands. Silvía er fyrirliði kvennaliðs SA, einnig er hún í fyrirliðateymi kvennalandsliðsins og ein af lykil leikmönnum þess. Silvía var meðal stigahæstu leikmanna s.l. tímabil og er stigahæst það sem af er á þessu tímabili.
Íþróttamaður hokkídeildar
Unnar Hafberg Rúnarsson er 23 ára uppalinn hjá Skautafélagi Akureyrar. Auk þess að hafa spilað með SA frá unga aldri spilaði hann fjögur tímabil í Svíþjóð en kom til baka árið 2022 og hefur verið einn af lykil leikmönnum liðsins síðan. Unnar hefur sýnt og sannað að hann er leikmaður sem skiptir máli fyrir lið sitt, auk þess að vera fyrirmynd annarra leikmanna á ísnum sem utan hans var hann stigahæstur leikmanna í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn á s.l. tímabili þegar SA landaði titlinum á ný. Hann var stigahæsti leikmaður SA í Evrópukeppninni Continental Cup nú í haust og á s.l. heimsmeistaramóti var Unnar valinn besti leikmaður Íslands á mótinu en hann var einnig stigahæsti leikmaður karlalandsliðsins.
Stjórn deildarinnar óskar þeim innilega til hamingju

