Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí spilar uppá gull

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí hefur þessa vikuna verið við keppni á heimsmeistaramótinu (Deild 2 B) sem að þessu sinni fer fram í Rúmeníu. Skautafélag Akureyrar á þar 11 fulltrúa auk þess sem Jón Gíslason er aðalþjálfari liðsins. Liðið er búið að tryggja sig í verðlaunasæti og er enn í baráttunni um gullið eftir örugga sigra á liðum Rúmeníu, Króatíu og Tyrklands en naumt tap gegn Nýja-Sjálandi þar sem markmaður Nýsjálendinga átti stórleik. Síðustu leikir mótsins verða spilaðir á morgun og mætir Ísland sterku liði Chinese Taipei kl. 13:30 á íslenskum tíma.

Taipei eru efstar í riðlinum með 12 stig, enda ekki tapað leik, en þar á eftir koma Nýja-Sjáland og Ísland með 9 stig hvort. Með sigri á Taipei á Ísland möguleika á gulli en þá þarf Nýja-Sjáland helst að tapa fyrir Króatíu. Ef Nýja-Sjáland og Ísland vinna sína leiki í venjulegum leiktíma verða Ísland, Taipei og Nýja-Sjáland jöfn að stigum og úrslit munu ráðast m.a. af markahlutfalli þessara þriggja liða. Það lið sem verst stendur eftir að tillit hefur verið tekið til markahlutfalls hafnar í þriðja sæti en innbyrðis viðureign gildir þá milli hinna tveggja liðanna um gullið. Þetta er því æsispennandi og vonum við að stelpurnar okkar haldi markareikningnum opnum áfram en þær eru með flest mörk skoruð á mótinu, alls 19.

Gaman er að bæta því við að hún Silvía okkar, sem nú er fyrirliði landsliðsins, er stigahæst á mótinu eins og staðan er núna, með 8 mörk og þrjár stoðsendingar. Sunna er þar rétt á eftir í 3. sæti með 8 stoðsendingar og 1 mark og næsti Íslendingur á listanum er Kolbrún með 2 mörk og þrjár stoðsendingar. Þessar þrjár hafa spilað saman sem framlína allt mótið og er víst að Taipei mun þurfa að hafa sig allar við að halda aftur af markaskorurunum okkar á morgun.

Áfram Ísland!