Íshokkítímabilið hefst hjá okkar liðum í dag

Íshokkítímabilið hjá okkar liðum hefst í dag með þremur leikjum sem allir fara fram syðra. Í Hertz-deild kvenna mæta Ynjur sameiginlegu liði Bjarnarins og SR í dag kl 16.20 í Egilshöll. SA Víkingar mæta svo Birninum í Hertz-deild karla kl 18.50 á sama stað en 3. flokkur heimsækir SR í Laugardalinn en sá leikur hefst kl 17.45. Tölfræði leikjanna má finna á heimasíðu ÍHÍ en leikjunum í Egilshöll hefur oft verið streymt og þá í gegnum vefsíðu Bjarnarins.

Ynjur eru með nokkuð óbreytt lið frá síðasta vetri en eiga eflaust eftir að sakna Kolbrúnar Garðarsdóttur en hún spilar í Bandaríkjunum í vetur. Aðrir máttarstólpar liðsins eru enn til staðar og þá hafa bæst við fleiri stelpur úr yngri flokkum SA sem eiga eflaust eftir að setja mark sitt á liðið þegar fram líður. Mótherjinn í kvöld er sameiginlegt lið SR og Bjarnarins sem sameinuðust nú í sumar og tefla því fram nokkur breiðu og sterku liði. Hér má sjá liðskipan liðanna í kvöld.

SA Víkingar hafa misst Hafþór Sigrúnarsson sem spilar í sænsku 2. deildinni í vetur. Finnsku leikmennirnir tveir þeir Mikko Salonen og Jussi Suvanto snúa ekki aftur í vetur en Jussi Sipponen spilar sem áður með liðinu og þjálfar. Þá hafa bæst við hópinn þeir Jordan Steger sem kemur frá Bandaríkjunum og Jón Aðalsteinsson úr Birninum. Róbert Steingrímsson og Jakob Jóhannesson verja markið í vetur og verður spennandi að fylgjast með þeim í vetur. Hér má sjá liðskipan liðanna í kvöld.

Á þriðjudag verður svo fyrsti heimaleikur SA liðanna þegar SA Víkingar taka á móti Esju í Hertz-deild karla en leikurinn hefst kl 19.30 í Skautahöllinni á Akureyri.