Ice Hunt á toppinn, Freyjur láta til sín taka

Freyjur: Linda, Heiðdís, Hugrún, Rannveig.
Freyjur: Linda, Heiðdís, Hugrún, Rannveig.


Önnur umferð Akureyrarmótsins í krullu fór fram í gærkvöldi. Ice Hunt hefur unnið báða leiki sína til þessa. Freyjur komu sterkar inn í síðari hluta leiksins gegn Víkingum, jöfnuðu og unnu í aukaumferð.

Freyjur er nýtt lið, eingöngu skipað konum, en eins og krullufólk veit hefur gengið brösuglega að fjölga konum í þessari íþrótt. Örfáar hafa stundað krulluna hingað til, nokkrar komið inn öðru hverju og í nokkur skipti hafa kvennalið - ýmis alveg innlend, alveg erlend eða blönduð erlendum og íslenskum leikmönnum - tekið þátt í alþjóðlega mótinu Ice Cup. En hugsanlega er þetta fyrsta kvennaliðið sem tekur þátt í móti á vegum Krulludeildar SA, öðru en Ice Cup. 

Freyjurnar lentu undir í leik sínum gegn Víkingum í gærkvöldi, en enn og aftur sannaðist að þegar einhver von er til staðar á maður ekki að gefast upp. Staðan var orðin 1-6 og síðan 2-7, Víkingum í vil, en Freyjur minnkuðu muninn í 5-7 og jöfnuðu síðan í lokaumferðinni, 7-7. Því þurfti aukaumferð til að skera úr um sigurvegara og þar skoruðu Freyjurnar enn eitt stigið og sigruðu að lokum, 8-7. 

Úrslit 2. umferðar:
Ice Hunt - Garpar 10-3 
Freyjur - Víkingar 8-7 

Öll úrslit og leikjadagskrá (excel)