Hallgrímur Valsson krullumaður ársins

Hallgrímur Valsson hlaut yfirborðakosningu meðal krullufólks og er krullumaður ársins 2011.

Hallgrímur Valsson hefur verið valinn krullumaður ársins úr röðum krullufólks í Skautafélagi Akureyrar. Jafnframt hefur Krullunefnd ÍSÍ útnefnt Hallgrím krullumann ársins og verður hann fulltrúi íþróttarinnar á árlegri samkomu þar sem íþróttafólk ársins í hinum ýmsu íþróttagreinum verður heiðrað.

Krullumaður ársins hefur verið valinn árlega frá 2004. Þetta er í annað sinn sem krullumaður ársins er valinn með almennri kosningu á meðal krullufólks og hlaut Hallgrímur yfirburðakosningu að þessu sinni.

Hallgrímur hefur verið formaður Krulludeildar Skautafélags Akureyrar í nokkur ár og unnið þar mikið og óeigingjarnt starf, meðal annars í viðleitni til að fá aðstöðu fyrir íþróttina bætta. Hann hefur verið fyrirliði Garpa í mörg ár og unnið fjölda móta, en á árinu 2011 leiddi hann liðið til sigurs á Íslandsmótinu. Með því tryggði liðið sér rétt til að leika fyrir Íslands hönd í C-keppni Evrópumótsins í september. Þar var liðið í baráttunni í efri hlutanum, endaði í fjórða sæti af níu þjóðum og sigraði meðal annars sterkt lið Pólverja og var það eini tapleikur pólska liðsins.