Fyrsta degi lokið á HM kvenna

Ljósmynd Elvar Freyr Pálsson
Ljósmynd Elvar Freyr Pálsson

Í gær hófst Heimsmeistaramót kvenna í íshokkí hér á Akureyri með þremur leikjum. Fyrsti leikurinn var á milli Úkraínu og Tyrklands sem lauk með sigri Tyrkja í framlengingu, 3 - 2. Næsti leikur var svo viðureign Nýja Sjálands og Króatíu sem lauk með auðveldum sigri Nýsjálendinga 11 - 1.

Aðalleikurinn hófst hins vegar kl. 20:00 í gærkvöldi og þá voru það okkar stúlkur sem tóku á móti Ástralíu, sem fyrirfram var talið sigurstranglegasta liðið. Íslenska liðið var seint í gang og átti fá svör við sterkum gestunum fram undir miðbik leiksins - en þá var staðan orðin 6 - 0 fyrir þær áströlsku.

Síðari hluti leiksins var hins vegar allt annar. Sunna Björgvinsdóttir skoraði eina mark Íslands eftir sendingar frá Silvíu Björgvinsdóttur og Sögu Blöndal, og eftir það var um jafnan leik að ræða fram til síðustu mínútu. Hvorugu liðinu tókst að skora og því urðu lokatölur 6 - 1. Stelpurnar börðust vel síðustu 30 mínútur leiksins og sýndu að þær ættu í fullu tré við gestina, og það gefur okkur ástæðu til að vera bjartsýn á framhaldið.

Ástralía er með sterkt lið og var að koma niður um deild. Það var því vitað að leikurinn yrði erfiður og svona er þetta bara stundum.

Mótið heldur áfram í dag. Fyrsti leikurinn hefst kl. 13:00 og þá mætast Króatía og Úkraína, svo kl. 16:30 mætast Tyrkland og Ástralía og kl. 20:00 mætir Ísland Nýja Sjálandi. Þetta er sannkölluð hokkíhátíð hér í Skautahöllinni Akureyri og hvetjum við sem flesta að láta sjá sig og taka þátt í þessu ævintýri.