Freydís og Sædís með góðan árangur á Norðurlandamótinu

Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir og Sædís Heba Guðmundsdóttir voru fulltrúar Skautafélags Akureyrar á Norðurlandamótinu á listskautum sem fór fram 1. - 4. febrúar í Borås, í Svíþjóð. Freydís Jóna náði 19. sæti í Junior flokki með heildarstig uppá 81.24 stig og Sædís Heba 15. sæti í Advanced Novice með 78.27 stig.

Eins og greint var frá á heimsíðu Skautasambands Íslands þá voru keppendur Íslands voru að þessu sinni sjö þær; Júlís Sylvía, Lena Rut, Freydís Jóna, Berglind Inga, Elín Katla, Katla Karítas og Sædís Heba. Hluti hópsins var að keppa á sínu fyrsta Norðurlandamóti en þær fengu góðan stuðning frá sér reyndari liðsmönnum í ferðinni.
Með keppnishópnum fóru tveir þjálfarar, Benjamin Naggiar og Jana Omelinova, og einn liðsstjóri, Svava Hróðný Jónsdóttir. Auk þeirra voru tveir fulltrúar á dómara- og tæknipanel, María Fortescue og Halla Björg Sigurþórsdóttir.

Keppnis hófst á fimmtudegi með stuttu prógrammi hjá Advanced Novice Girls og Junior Women. Sædísi Heba Guðmundsdóttur var reynsluboltinn í þessum keppnisflokki. Fyrir stutta prógrammið fékk hún 27.67 stig og 14. sætið eftir daginn. 

Junior Women kepptu svo síðar um daginn og átti Ísland tvo skautara í keppnisflokknum. Það var Lena Rut Ásgeirsdóttir sem var fyrr inn á ísinn og fékk hún 29.01 stig fyrir stutta prógrammið og 19. sætið eftir daginn. Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir var síðasti íslenski keppandi dagsins og fékk hún 30.03 stig fyrir stutta prógrammið og 18. sætið eftir daginn.

Á föstudegi er iðulega styttri keppnisdagur en aðra daga á Norðurlandamóti þar sem að um kvöldið fer fram svokallaður Official Dinner þar sem allir keppendur á mótinu ásamt þjálfurum, liðsstjórum, starfsfólki á dómarapanel ásamt skipuleggjendum mótsins hittast í skemmtilegum kvöldverði.
Þann keppnisdag voru því bara Advanced Novice stúlkurnar að keppa af íslenska hópnum og kepptu þær með frjálst prógram.
Sædís Heba fékk þar 50.60 stig fyrir frjálsa prógrammið. Það gaf henni 78.27 í heildarstig og 15. sætið að lokum. 

Á laugardegi var keppt með frjálst prógram í Junior flokkum og stutt prógram hjá Senior flokkum. Freydís Jóna Jing fékk 51.21 stig fyrir frjálsa prógrammið og 81.24 í heildarstig og 19. sætið samanlagt.

Í Senior flokki var Júlía Sylvía Gunnarsdóttir að keppa í fyrsta sinn á Norðurlandamóti í þeim keppnisflokki en
fyrir stutta prógrammið fékk Júlía Sylvía 45.28 stig og 8. sætið eftir fyrri daginn. Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 75.70 stig og samanlagt fékk hún 120.98 stig og 9. sætið að lokum sem eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti. Fyrra met átti Aldís Kara frá árinu 2022.