Frábær byrjun SA Víkinga í Hertz-deildinni

Heiðar Örn var öflugur. /Mynd: Þórir Tryggvason
Heiðar Örn var öflugur. /Mynd: Þórir Tryggvason

SA Víkingur hófu Hertz-deildina með látum á laugardag þegar þeir unnu 5-0 sigur á SR. Leikurinn var hraður og skemmtilegur þar sem fjölmörg tilþrif litu dagsins ljós. Heiðar Kristveigarson skoraði tvö marka SA, Jónhann Már Leifsson, Heiðar Jóhannsson og Hinrik Halldórsson skoruðu eitt mark hver.

Leikurinn var hraður og skemmtilegur þrátt fyrir að vera fyrsti leikur vetrarins enda byrjar deildin fremur seint í ár miðað við fyrri ár og liðin hafa haft nægan tíma til undirbúnings. Það voru SA Víkingar sem tóku undirtökin strax frá byrjun leiks og stjórnuðu spilinu en allar þrjár línur SA náðu nokkuð góðri pressu í byrjun leiks. Jóhann Már Leifsson skoraði fyrsta mark Víkinga snemma leiks þegar hann lagði pökkinnn snyrtilega í markið með bakhönd eftir góðan undirbúning Andra Mikaelssonar. Heiðar Jóhannsson skoraði svo annað mark Víkinga skömmu síðar á skemmtilegan hátt þegar hann speglaði pekkinum af markinu á sjálfan sig og kláraði svo færið vel. Það mátti vel færa rök fyrir því að Heiðar fengi 1+1 fyrir tilþrifin enda sendingin einkar lunkin. SA Víkingar voru mun sterkari aðilinn í fyrstu lotunni og fóru með 2-0 inn í leikhlé. Önnur lotan spilaðist svipað og sú fyrsta þar sem SA Víkingar höfðu undirtökin en þau færi sem Víkingar gáfu á sér lokað Jakob á í markinu en hann var gríðarlega öflugur að vanda í marki Víkinga. Heiðar Örn Kristveigarson setti upp litla sýningu í annarri lotunni og skorað tvö gullfalleg mörk þar sem hann sýndi bæði leikni sína og frábæra skottækni og kom SA í 4-0 með mörkunum sínum. Þriðja lotan var svo mun jafnari en þær tvær fyrstu og gekk spilið fram og til baka en Hinrik Halldórsson gulltryggði sigur Víkinga skömmu fyrir leikslok þegar hann slapp einn í gegn um vörn SR og klobbaði markvörð SR og SA vann góðan 5-0 sigur.

Frábær byrjun hjá SA Víkingum og drengirnir hans Rúnars koma heldur betur frískir til leiks eftir sumarið og líta virkilega vel út. Arnar Kristjánsson og Bjarmi Ágústsson fengu eldskírn sína í meistaraflokki og stóðu sig vel í leiknum. Næsti leikur SA Víkinga er gegn Fjölni 10. október í Egilshöll. Næsti heimaleikur Víkinga er 31. október gegn Fjölni.