Frábær árangur SA stúlkna á Reykjavíkurleikunum um helgina.

Íslandsmeistarar 2020
Íslandsmeistarar 2020

Reykjavíkurleikarnir í listhlaupi fóru fram í Laugardalnum um helgina. SA mætti til leiks með vaskt lið tilbúið í átök helgarinnar. Þar sem Íslandsmót/Íslandsmeistaramótið sem fara átti fram í nóvember féll niður vegna Covid 19 ákvað Skautasamband Íslands að Íslandsmeistaramótið yrði keyrt samhliða Reykjavíkurleikunum og því ljóst að nýjir Íslandsmeistarar yrðu krýndir í lok mótsins.

Mótið hófst á laugardaginn með keppni með stutta prógrammið í Advanced Novice þar áttum við 2 keppendur þær Freydísi Jónu Jing og Sædísi Hebu sem var á sínu fyrsta móti í flokknum. Freydís var þriðja inn á ísinn og gerði hún vel. Lenti 2A full róteraðan í fyrsta skipti á móti, en var svo óheppin að missa samsettaspinninn sinn. Hún lauk keppni í dag með 15.02 í tæknistig og samanlagt 28.74 stig sem er ansi nálægt hennar besta. Þá var komð að frumrauninni hjá Sædísi í þessum flokki. Hún skautaði fallegt prógram og lauk því með glæsilegum samsettum spinn á plúsum og fékk fyrir prógrammið 13.90 í tæknistig og 26.68 samanlagt. Þær stöllur voru því efstar í hópnum fyrir frjálsa prógrammið á sunnudaginn.

Þá var komið að keppni í Junior. Þar áttum við einn keppanda hana Júlíu Rós. Júlía er á sínu fyrsta tímabili í flokknum og því spenna að sjá hvernig henni gengi um helgina. Júlía skautaði mjög fallegt prógram með bæði 2A og þreföldu Salchowi í samsettningu. Prógrammið hennar var að stærstum hluta á plúsum frá dómurunum og lauk hún keppni eftir stutta prógrammið efst með 26.21 í tæknistig og 45,87 stig samanlagt sem er persónulegt met hjá henni.

Næst var komið að keppni í Senior. Þar áttum við einn keppanda hana Aldísi Köru, en hún ákvað að færa sig upp í Senior flokkinn fyrir þetta mót. Aldís skautaði gullfallegt prógram með 2A, þreföldu Salchowi í samsettningu og þreföldu Toeloop, auk þess að fá 2 spinna á level fjögur og á plúsum. Hún lauk keppni eftir stutta prógrammið á nýju Íslandsmeti með 22.53 í tæknistig og 40.93 stig samanlagt. 

Keppni í þessum þrem efstu flokkum hélt svo áfram á sunnudeginum.

Eftir heflun hélt keppni áfram og þá var komið að keppni í Basic Novice. Þar áttum við tvo keppendur þær Berglindi Ingu og Sölku Rannveigu. Berglind Inga var í fyrri upphitunarhóp og skautaði hún gullfallegt prógram sem skilaði henni 27.64 stigum og sigri í hópnum á Reykjavíkurleikunum og þá um leið Íslandsmótsbikar. Salka Rannveig var í seinni upphitunarhóp og skautaði hún einnig mjög fallegt prógram og fékk fyrir það 19.30 stig sem skilaði henni 6 sæti á sínu fyrsta móti í hópnum. Við óskum Berglindi og Sölku innilega til hamingju með árangurinn.

Sunnudagsmorguninn rann upp og þá var komið að keppni í yngstu flokkunum Chicks og Cups. Þar áttum við tvo keppendur þær Ylfu Rún í Chicks og Athenu Lindeberg í Cups. Í þessum flokkum er ekki raðað í sæti heldur fá allir þátttökuverðlaun. Stelpurnar stóðu sig báðar mjög vel og óskum við þeim innilega til hamingju.

Þá var komið að keppni með frjálsa prógrammið hjá efstu flokkunum þrem. Stelpurnar í Advanced Novice riðu á vaðið. Í frjálsa prógramminu er keppendum raðað í öfuga úrslitaröð að loknu stutta prógramminu. Sædís Heba hóf því keppni þriðja í flokknum og skilaði hún glæsilegu prógrammi þar sem hún negldi öll tvöföldu stökkin og var með spor upp á level 3. Þetta skilaði henni 22.38 í tæknistigum og samanlagt fyrir frjálsa 50.41 stig og 77.09 í heildarstig og annað sæti á sínu fyrsta móti í Advanced Novice.

Þá var komið að Freydísi Jónu Jing. Hún opnaði prógrammið sitt með opnunarstökksería sem var þriggja stökka með tvöföldum Axel, hálfu Loop, tvöföldu Salchow, féll því miður í salchowinu og strax á eftir annar tvöfaldur Axel en þrátt fyrir að hafa náð að full snúa axelinn þá féll hún í honum. Það hins vegar gaf henni bara meiri byr í seglin og negldi hún restina af prógraminu með 27.79 í tækni stig og samanlagt 54,93 stigum sem er persónulegt met og í heildina 83,67 stig.  Þetta tryggði Freydísi gullið og Íslandsmeistaratitilinn.

Júlía Rós var svo síðust inn á ísinn í Junior flokknum. Hún skautaði stórglæsileg prógram opnaði með glæsilegu þreföldu Salchow í samsetningu með tvöföldu Toeloop og svo strax á eftir tvöfaldan Axel og síðan annað þrefalt Salchow. Spinnar voru hnökralausir og vel miðjaðir og stökkin sem á eftir komu góð með einu falli. Stigin fyrir prógramið voru 46.03 í tæknistig og  82.50 stig samanlagt og heildarstigafjöldi upp á 128.37. Persónulegt stigamet hjá Júlíu Rós. Þetta tryggði Júlíu gullið og Íslandsmeistaratitilinn í Junior flokki.

Þá var komið að keppni í Seniorflokknum. Aldís Kara hóf leik þreföldu Salchow í þriggja stökka seríu með tveimur tvöföldum stökkum, strax á eftir tvöföldum Axel og síðan þreföldu Toeloop í samsetningu með tvöföldu stökki. Seinna bætti hún um betur og lagði annað þrefalt Salchow. Stigin urðu 44.77 í tæknistig og 82.51 stig samanlagt fyrir frjálsa og í heildina 123.44 og bætti hún  Íslandsmetið í stuttu og frjálsu prógrami sem og heildarstigin. Hún hlaut gull á Reykjavíkurleikunum, auk þess að vera krýndur Íslandsmeistari í Senior flokki.

Aldís Kara fékk einnig Úrslitaverðlaun RIG (Best Results) en þau eru veitt stigahæsta skautara í efsta flokki á mótinu. 

SA kom því heim með þrjá Íslandsmeistara, ein silfurverðlaun og einn Íslandsmótsbikarhafa. 

Við óskum stelpunum, foreldrum og ekki síst þjálfaranum okkar henni Darju Zajchenko innilega til hamingju með árangurinn um helgina.

Frekari upplýsingar um mótið er að finn á heimasíðu skautasambandsins www.iceskate.is