Sigrar hjá öllum SA liðunum í leikjum helgarinnar

SA stúlkur fagna marki (mynd: Þórir Tryggva)
SA stúlkur fagna marki (mynd: Þórir Tryggva)

SA hokkí liðin unnu sigra í öllum leikjum helgarinnar en keppt var í Hertz-deildum kvenna og karla ásamt U-18. Kvennalið SA vann stórsigra á nýliðum SR í tvíhöfða á Akureyri 17-2 og 19-0. SA Víkingar unnu 5-1 sigur á Fjölni í Egilshöll á laugardag og U18 lið SA vann 6-3 sigur á Fjölni á föstudagskvöld.

SA stúlkur léku tvíhöfða um helgina á móti SR sem teflir fram kvennaliði í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið. Leikirnir voru einstefna á mark SR en þrátt fyrir það voru þeir mikil skemmtun en leikgleði einkenndi bæði lið enda stúlkunum farið að eygja eftir hokkíleikjum eftir langt hlé. SA stúlkur léku við hvern sinn fingur í sóknarleiknum á meðan leikmenn SR liðsins börðust eins og ljón í varnarleiknum. Lokatölur leikjanna urðu 17-2 og 19-0 en tólf mismunandi leikmenn skoruðu mörkin hjá SA um helgina. 

SA Víkingar sóttu Fjölni heim í Egilshöll á laugardagskvöld. Mikill hraði og barátta einkenndi leikinn frá upphafi til enda. Fjölnir náði forystu í leiknum eftir og leiddu 1-0 eftir fyrstu lotu. SA Víkingar stigu á bensíngjöfina í annarri lotunni og skoruðu 3 mörk án þess að Fjölnir næði að svara fyrir sig og höfðu 3-1 forystu fyrir síðustu lotuna. SA bættu svo við 2 mörkum í síðustu lotunni og unnu nokkuð sannfærandi 5-1 sigur og hefur líðið því unnið báða leiki sína í Hertz-deildinni í vetur.