Eva María Karvelsdóttir íshokkíkona SA 2017

Eva María Karvelsdóttir hefur verið valin íshokkíkona Skautafélags Akureyrar árið 2017.

Eva María er varnarmaður og hefur verið lykilleikmaður í liði Ásynja sem og kvennalandsliði Íslands síðastliðin ár. Árið 2017 var mjög gott hjá Evu en henni hlotnaðist sá heiður að vera valin besti varmarmaður heimsmeistaramóts kvenna sem fram fór á Akureyri síðastliðin vetur þar sem hún skoraði 2 mörk og lagði upp önnur 4 mörk í 5 leikjum. Eva María var á dögunum einnig valin íshokkíkona Íslands fyrir árið 2017.

Eva María byrjaði að æfa skautaíþróttir í lishlaupadeild SA þar sem hún æfði í 3 ár. Áhuginn á íshokkí kviknaði í vetraríþróttavali í skólanum 15 ára gömul og sýndi sig strax að hún hefði mikla hæfileika í íþróttinni. Góð skautageta, hraði og líkamlegur styrkur einkennir leik Evu en fáir standast henni snúningin þegar hún skautar með pökkinn. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur Eva leikið í meistaraflokki kvenna í 10 ár og unnið 8 Íslandsmeistaratitla en hún missti af tímabilinu 2012/2013 vegna barneigna. Eva hefur einnig farið 4 sinnum á HM í íshokkí með kvennalandsliði Íslands.

Eva María er frábær íþróttamaður og mikil fyrirmynd sem leggur mikið á sig til þess að ná árangri. Eva hefur alla tíð verið dugleg að mæta á aukaæfingar bæði á ís sem og af ís sem hefur skilað sér í hröðum framförum. Eva er einnig verðmæt félaginu þar sem hún hefur verið einstaklega dugleg við að hjálpa til við þjálfun barna- og unglinga. Skautafélag Akureyrar er stolt af að hafa Evu Maríu í sínum röðum en hún er sannarlega vel að nafnbótinni kominn.

Við óskum Evu Maríu innilega til hamingju með nafnbótina.

Eva með viðurkenninguna ásamt formanni Hokkídeildar og íshokkímanni ársins. (mynd: Ásgrímur Ágústsson)