Enn einn sigur hjá Víkingum og Ásynjur ósigraðar enn

Víkingar báru sigurorð af SR-ingum í Laugardal síðastliðinn föstudag, lokatölur 3-6. Víkingar hafa því unnið 4 leiki í röð og sitja efstir í deildinni með 13 stig. Ásynjur sigruðu Björninn 2-3 með Gullmarki í framlenginu á laugardeginum í Egilshöll og 2. Flokkur tapaði sínum leik 9-2.

Leikurinn í Laugardalnum var nokkuð prúðmannlega leikinn af báðum liðum, lítið var um dóma og minnti fátt á það sem áður var þegar þessi einvígi voru bæði grimm og vægðarlaus.

SR-ingar byrjuðu leikinn mun betur en Víkingar og voru grimmari í öllum sínum aðgerðum. Víkingar fengu samt sem áður nokkur færi en SR-ingar þó fleiri og voru fyrri til að skora þegar Miloslav Racansky setti pökkinn í netið á sjöttu mínútu. SR-ingar héldu áfram að sækja og Robbi Sigurðsson komst upp að endamörkum og þræddi pökkinn milli fóta Rett Vossler í marki Víkinga, staðan 2-0 eftir rúmlega 12 mínútna leik og brekka framundan fyrir Víkinga. Víkingar sóttu meira eftir þetta en tókst ekki að koma sér í ákjósanleg færi.

Strax í upphafi 2. lotu stal Ben Dimarco pekkinum af varnarmönnum SR og komst einn í gegn og kláraði snyrtilega. Stuttu síðar fengu SR-ingar Power Play og sóttu stíft en Víkingar náðu skyndisókn þar sem Ben Dimarco fór upp völlinn skautaði utan við varnarmenn SR og skoraði með góðu skoti. Staðan orðin 2-2 þegar 25 mín. voru liðnar og leikurinn í járnum og liðin skiptust á að sækja. Víkingar komust svo yfir er skammt var eftir af 2. lotu þegar Gunnar Darri Sigurðsson keyrði utan á varnarmenn SR komst í gott færi og skaut pekkingum í fjærstöngina og inn þrátt fyrir að Ævar í marki SR hafi komið langt út og lokað á nánast allar opnanir.

Mikið jafnræði hafði verið í leiknum fram að 3. lotu og mikil spenna í loftinu, kannski einum of mikil því rafmagn fór af Laugardalnum eftir aðeins 2 mínútna leik og niðamyrkur í höllinni. Fyrir þá sem ekki vita eru reglurnar þær að, leikmenn skulu sendir til búningsklefa og ef ekki er komið rafmagn á eftir 25 mínútur skal leikurinn vera flautaður af og úrslit standa ef leikur er hálfnaður eða meira en spilast aftur ef hann er styttra kominn. Leikmenn höfðu þó ekki setið lengi í búningklefum þegar rafmagn komst aftur á en rafmagnsleysið virtist hafa slökkt á leikmönnum SR. Víkingar skoruðu fljótt með bylmings skoti Björns Más Jakobssonar með viðkomu í leikmanni SR. Jón Benedikt Gíslason skoraði svo með skoti upp í nær hornið eftir að Sigurður Reynisson hafði sent hann einn í gegnum vörnina. Staðan 5-2 og nokkuð ljóst að Víkingar færu með sigur af hólmi þrátt fyrir jafnan leik en báðar varnir voru nokkuð þéttar fram að þessu. Guðmundur Þorsteinsson minnkaði þó muninn með frábæru skoti frá bláu línunni yfir hanska Retts í markinu en Ben svaraði að bragði með sínu 3. marki en hann var allt í öllu í leik Víkinga líkt og fyrirsögn á fréttassíðu Hokkíeyjunar gefur til kynna. Þess má geta að Hokkíeyjan er með frábæra umfjöllun um íslenskt íshokkí en vantar góðan penna fyrir leiki sem fram fara á Akureyri.

Víkingar stóðu þó uppi sem sigurvegarar en SR-liðið spilaði mun betur í þessum leik en þegar þeir mættu Víkingum á Akureyri og ljóst að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin en liðið gerði okkar mönnum erfitt fyrir og hefðu getað tekið öll stigin ef ekki væri fyrir stórleik Ben Dimarco. Næsti leikur Víkinga fer fram á Akureyri þriðjudaginn 29. september þegar þeir taka á móti Esju-mönnum kl 19.30.