Elise Marie Väljaots og Björn Már Jakobsson íshokkífólk ársins 2015 hjá SA

Íshokkífólk ársins 2015 (mynd: Elvar Páls)
Íshokkífólk ársins 2015 (mynd: Elvar Páls)

Þau Elise Marie Väljaots og Björn Már Jakobsson hafa verið útnefnd íshokkífólk ársins 2015. Þau voru heiðruð á svellinu fyrir leik Ásynja og SR í gærkvöld. Skautafélag Akureyrar óskar þeim til hamingju með nafnbótina.

Elise Marie Väljaots

Elise er markmaður og var lykilmaður í liði Ásynja sem varð bæði deildar- og Íslandsmeistari á síðastliðnu keppnistímabili en hún var einnig í Kvennalandsliði Íslands sem keppti á heimsmeistaramótinu á Spáni í vor. Elise hefur alls unnið 4 Íslandsmeistaratitla með SA, fyrstu tvo titlana sem útispilari en síðustu tvo sem markmaður.

Íshokkísaga Elise er ekki löng en hún er viðburðarík. Elise byrjaði að stunda íshokkí fyrst árið 2011 og spilaði til að byrja með sem útispilari. Það var ekki fyrr en í október árið 2013 sem hún fór fyrst í markið. Það hefur verið ótrúlegur framgangur hjá Elise í þessari stöðu en hún er nú einn albesti markmaður deildarinnar og er í Kvennalansliði Íslands. Hún æfir einnig með karlaliði félagins og hefur verið í hópnum hjá SA Víkingum í þremur leikjum í ár.

Það hefur eflaust komið mörgum í opna skjöldu hversu hratt Elise hefur skotist á stjörnuhimininn en þeim sem til þekkja ætti það ekki að koma á óvart. Elise hefur mikinn íþróttabakgrunn og var afreksíþróttamaður í bæði frjálsum íþróttum og á skíðum áður en hún byrjaði í íshokkí. Þar er þó ekki öll sagan sögð en oft er sagt að æfingin skapi meistarann og það á fullkomlega við Elise þar sem það er líklegast enginn leikmaður hjá SA sem æfir jafn mikið og leggur jafn hart að sér og Elise. Elise er frábær fyrirmynd og stórkostlegur íþróttamaður sem er einstaklega vel að nafnbótinni komin.

Björn Már Jakobsson

Björn Már er 33 ára varnarmaður og var mikilvægur hlekkur í liði SA Víkinga sem varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili en hann spilaði einnig fyrir Karlalandslið Íslands á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Reykjavík í vor. Björn er einn leikjahæsti leikmaður SA og landsliða Íslands frá upphafi en Íslandsmeistaratitlarnir hjá Birni eru orðnir 14 talsins.

Björn hefur spilað íshokkí frá barnsaldri, með meistaraflokki síðan hann var 15 ára og með landsliðum Íslands frá 18 ára aldri. Björn er gríðarlega útsjónasamur leikmaður og hefur frábært auga fyrir spili. Björn er iðulega einn af stigahæstu varnarmönnum deildarinnar og hefur einnig í seinni tíð orðið þekktur fyrir að vera mikil vítaskytta.

Björn er mikill gleðigjafi og ómissandi hluti af liðsheild Víkinga. Björn er virkur í öllu starfi Skautafélagsins og hefur til að mynda þjálfað flest alla flokka félagsins á einum tíma eða öðrum og hefur verið aðalþjálfari hjá kvennaliði SA ásamt því að vera aðstoðarþjálfari Kvennalandsliðs Íslands. Björn er frábær fyrirmynd og vel að nafnbótinni kominn.