Dagatal Krulludeildar - og skilaboð frá formanni

Mynd: HI
Mynd: HI


Stjórn Krulludeildar hefur sett saman drög að dagatali fyrir veturinn 2013-2014. Þannig getur krullufólk nokkurn veginn áttað sig á mótafyrirkomulagi vetrarins, dagsetningum og öðru sem framundan er.

Dagatal Krulludeildar

Veturinn verður að mestu með hefðbundnu sniði en þó eru nokkrar nýjungar í farvatninu. Dagatalið tekur síðan breytingum jafnóðum og eitthvað nýtt kemur til eða breytingar verða á áætlunum.

Krullukynning og Nýliðamót
Mánudagskvöldið 7. október verða Garpar fjarverandi vegna þátttöku í Evrópumótinu. Ákveðið var að ekki yrði spiluð umferð í Akureyrarmótinu það kvöld, heldur verður opið hús og NÝLIÐAKYNNING, ókeypis aðgangur og allir velkomnir. Krullufólk er hvatt til að mæta og taka þátt í að leiðbeina gestum - og auðvitað að taka með sér gesti. Í framhaldinu er svo fyrirhugað að halda Nýliðamót laugardaginn 12. október. Tímasetning og fyrirkomulag á því verður auglýst síðar, en það ræðst meðal annars af þátttöku.

Fjölgun iðkenda
Krulludeildin og krulluíþróttin er í þörf fyrir nýliðun, fjölgun iðkenda og þar með fjölgun liða. Við ætlum að hefja átak í þeim efnum núna í byrjun október. Jafnframt er hugmyndin að stökkva á tíma sem losna, til dæmis þegar hokkíliðin okkar fara suður til keppni og laugardagsæfingar í hokkíinu falla niður eða þegar keppendur í listhlaupi fara suður á mót og losnar um tíma þær helgar. Slíkir dagar eru merktir með fjólubláu á dagatalinu og kallaðir "tækifæri?". Þessi tækifæri eru að mestu undir okkur sjálfum komið. Ef við nennum að gera eitthvað og erum tilbúin að grípa gæsina þegar hún gefst þá gerist eitthvað. Þessa daga getur verið möguleiki á að breyta út af hefðbundnum krulluæfingum og -keppni. Viðburðir á slíkum dögum verða auglýstir sérstaklega og reynt að gera það með sæmilegum fyrirvara þegar mögulegt er. 

Skipulagðar tækniæfingar
Stjórn Krulludeildar ætlar að gera tilraun til að nýta betur miðvikudagsæfingarnar og vonandi fá fleiri til að mæta. Ætlunin er að viljugir krullufélagar taki að sér að stýra skipulögðum tækniæfingum í upphafi miðvikudagstímanna – fyrst um sinn verður þetta prófað fyrsta miðvikudag í mánuði. Sjálfboðaliðar úr okkar röðum óskast til að taka að sér þetta verkefni. Inn á dagatal Krulludeildar verður fært hvaða félagar stýra æfingunni hverju sinni (einn til tveir). Hugmyndaflugið verður látið ráða, mörg okkar eiga til hugmyndir að æfingum frá því að Camilla Jensen kom hingað á Ice Cup 2011 og tók okkur í gegn og eins má alltaf finna eitthvað með leit á netinu.

Þau ykkar sem hafið áhuga á að taka þátt í þessu verkefni og stýra æfingu í eitt eða tvö skipti í vetur, vinsamlega hafið samband við formann Krulludeildar, haring@simnet.is eða 824 2778.

Fyrsta æfingin undir þessu skipulagi verður miðvikudaginn 9. október og verður nöfnum stjórnenda bætt inn á dagatalið þegar þau mál skýrast. Formaður ætlar hins vegar að huga að öðru flest miðvikudagskvöld í vetur, en aðrir í stjórn og annað krullufólk mun halda uppi merkjum íþróttarinnar á miðvikudagskvöldum.

Mótadagskráin
Mótadagskrá vetrarins er nokkuð hefðbundin. Fjöldi leikdaga í hverju móti fyrir sig er áætlaður út frá líklegri þátttöku, en gæti fjölgað eða fækkað eftir aðstæðum. Úrslitakeppni Íslandsmótsins er á forræði Krullunefndar ÍSÍ, en betur hugað verður að dagsetningum fyrir úrslitakeppnina þegar þar að kemur.

Þegar mót eru í gangi eru tveir síðustu miðvikudagarnir merktir sem dagar fyrir frestaða leiki - en eru að sjálfsögðu einnig bara hefðbundnir æfingadagar.

Ice Cup er merkt inn frá og með mánudeginum 28. apríl, en miðað er við að undirbúningsvinna við svellið hefjist sunnudagskvöldið 27. apríl að loknum æfingum. Mótið sjálft myndi síðan hefjast fimmtudaginn 1. maí og ljúka með hefðbundnum hætti og lokahófi á Greifanum laugardagskvöldið 3. maí. Mögulega verður leikjadagskránni breytt þetta árið þar sem fimmtudagurinn er frídagur (1. maí).

Óska ykkur góðra steina í vetur.
Haraldur Ingólfsson, formaður Krulludeildar.