Bikarmót ÍSS 2015 - seinni keppnisdagur

Bikarmót ÍSS 2015 Novice A
Bikarmót ÍSS 2015 Novice A

Mótið hélt áfram í morgun með keppni í 12 ára og yngri B. Þar áttum við 2 keppendur þær Bríet Berndsen og Önnu Karen. Báðar bættu þær sinn persónulega árangur í dag, þó ekki dygði það þeim í verðlaunasæti í þetta skiptið. Bríet Berndsen hafnaði í 4.sæti með 22.12 stig og Anna Karen í 5.sæti með 21.73 stig.

 

Þá var komið að keppni í stúlknaflokki A – frjálst prógramm. Þar réðust úrslit ekki fyrr en á síðustu mínútu. SA stelpurnar okkar þrjár í Novice kepptu grimmt um þrjú efstu sætin. Aldís Kara skautaði fyrst inn á svellið. Hún átti frábæran dag og skilaði glæsilegu prógrammi uppá 21.30 stig í tæknieinkunn og hlaut samanlagt fyrir frjálsa 44.50 stig, sem var hæsta skor dagsins í flokknum. Hún fékk samanlagt fyrir bæði 69.59 stig. Því næst var komið að Ásdísi Örnu sem skilaði nær hnökralausu prógrammi í dag og fékk fyrir það 22.50 stig í tæknieinkun og samanlagt fyrir frjálsa 44.36 stig. Hún fékk samanlagt fyrir bæði 70.04 stig. Þá var röðin komin að Mörtu Maríu sem stóð efst eftir stutta. Hún átti ekki sinn besta dag í dag, en skilaði samt fínu prógrammi. Hún fékk 20 stig i tæknieinkunn og samanlagt 42.53 stig fyrir frjálsa. Samanlagt hlaut hún 70. 84 stig sem dugði henni til sigurs og er hún því bikarmeistari í Novice A. Sætaröðin milli þeirra þriggja breyttist því ekki í dag, þó mjótt væri á mununum. Þessar dömur hafa allar skilað viðmiðum í úrvalshóp ÍSS fyrir stúlknahóp A bæði fyrir stutta og frjálsaprógrammið.

 

Mótinu lauk svo með keppni í Unglingaflokki A – frjálst prógramm. Þar átti Emilía Rós frábæran dag og gerði sér lítið fyrir og skautaði sig í fyrsta sæti, upp fyrir þær stúlkur sem stóðu efstar eftir stutta prógrammið í gær. Emilía skilaði stór glæsilegu prógrammi sem gaf henni 30.61 stig í tæknieinkunn og 65.41 samanlagt fyrir frjálsa. Þetta þýddi að Emilía sigraði Unglingaflokk A  með tæpum 6 stigum og hlaut hún samanlagt 96.40 stig. Hún er því bikarmeistari í Unglingaflokki A 2015 og vel að þeirri nafnbót komin. Með þessum árangri í dag skilaði hún viðmiðum fyrir frjálst prógramm í úrvalshóp ÍSS í Unglingaflokki A. Elísabet Ingibjörg (Gugga) átti mikið betri dag í dag, en í gær og skilaði hún glæsilegu frjálsu prógrammi með 26.39 í tæknieinkunn  og 53.86 stig samanlagt fyrir frjálsa. Hún fékk 77.71 stig samanlagt fyrir bæði prógrömmin og skilaði það henni í 5.sæti.

Við óskum stelpunum, Ivetu þjálfara og foreldrum til hamingju með frábæran árangur um helgina og óskum öllum góðarar heimkomu.