Athugasemd við ummæli í Coaches Corner

Viðar Garðarsson óskaði eftir að eftrifarandi athugasemdum yrði komið á framfæri hér á vefnum vegna skrifa Jans (o: "pirraða þjálfarans" :o) í lokakafla skrifa hans um leik SA SR 29. og 30. jan. 2005 í Coatches Corner

Vegna skrifa þjálfara ykkar Jan Kobezda á heimasíðu félagsins undir liðnum ?Þjálfarahornið? langar undirritaðan að koma eftirfarandi á framfæri svo ekki verði um frekari mistúlkanir að ræða. Gott væri ef þessi athugasemd yrði kynnt eða birt á heimasíðu ykkar.

ATHUGASEMD

Íshokkísambandið hefur ekkert með lyfjaeftirlit og framkvæmd þess að gera. Undir væng ÍSÍ er starfandi Heilbrigðisráð sem að fer með öll lyfjapróf og ákveður hvar og hvenær sýni úr leikmönnum eru tekin. Síðan eru ákveðnar formreglur sem að Heilbrigðisráð ÍSÍ og jafnframt leikmenn sem valdir eru til prófs þurfa að fylgja og gildir þá einu hvort um er að ræða hokkíleikmenn eða aðra íþróttamenn.

Þegar leikmenn hafa verið valdir til sýnatöku ber að tilkynna þeim það áður en að leik lýkur (það gera starfsmenn Heilbrigðisráðs), viðkomandi leikmenn verða síðan að gefa sig fram við starfsmenn Heilbrigðisráðs til sýnatöku um leið og leik lýkur áður en þeir ganga til búningsherbergja. Brot á þessum formreglum geta haft alvarlegar afleiðingar á báða bóga. Rétt er að benda á að samskonar tilkynningar fóru fram á leikmannabekkjum beggja liða.

Að láta að því liggja að undirritaður hafi haft með þetta próf að gera og setja það í það samhengi við annað það sem að pirraður þjálfarinn hefur út á störf sambandsins að setja er einfaldlega ekki rétt og ber að leiðrétta.

Með Íþróttakveðju,

Viðar Garðarsson

formaður ÍHÍ