Ásynjur unnu verðskuldaðan sigur

Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd:Elvar P.)
Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd:Elvar P.)

Í gærkvöld áttust Ásynjur og Ynjur við í fimmta sinn í vetur. Fyrir viðureignina höfðu liðin unnið sinn leikin hvort, Ásynjur annan leikinn eftir framlengingu og vító. Þetta var jafnframt síðasti leikur liðanna fyrir jól.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks og strax eftir um eina og hálfa mínútu kom Sarah Smiley Ásynjum yfir með góðu marki. Þegar um 5 mínútur voru eftir að fyrstu lotu jafnaði Saga Margrét Blöndal fyrir Ynjur með glæsilegu marki án stoðsendingar. Skömmu seinna kom Jónína Guðbjartsdóttir Ásynjum svo aftur yfir, en pökkurinn hafði viðkomu í varnarmanni Ynja á leið sinni í markið. Staðan eftir fyrstu lotu var því 2-1, Ásynjum í vil.

Ásynjur byrjuðu aðra lotuna af krafti og eftir rúmar tvær mínútur skoraði Sarah sitt annað mark. Silvía Rán Björgvinsdóttir svaraði svo með góðu marki fyrir Ynjur í yfirtölu eftir að Sarah hafði verið send í boxið. Þegar um þrjár og hálf mínúta var eftir af annarri lotu jók svo Arndís Eggerz aftur muninn fyrir Ásynjur með hörkuskoti nánast af bláu línunni. Undir blálok lotunnar skoraði svo Saga aftur fyrir Ynjur og staðan í seinna leikhléi 4-3, Ásynjum í vil.

Ynjur byrjuðu þriðju lotuna heldur betur en þær höfðu leikið í fyrri lotunum tveimur en allt kom fyrir ekki og Arndís innsiglaði sigur Ásynja þegar lotan var rétt rúmlega hálfnuð. Lokatölur voru 5-3.

Ásynjur voru sterkari og ákveðnari í leiknum og áttu sigurinn fyllilega skilið. Þær virðast í fantaformi, voru einbeittar og virtust mjög oft fleiri á ísnum en Ynjurnar. Þær voru sneggri í pekkina og vörnin á köflum mjög öflug. Ynjurnar áttu góða spretti en yfirhöfuð virtust þær vera með hugann við eitthvað annað en leikinn, mögulega próf sem eru að hefjast í MA í dag.

Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, sagði eftir leikinn að betra liðið hefði einfaldlega unnið. Ásynjur hefðu átt góðan leik og gert hans stúlkum erfitt fyrir. Hann sagði að þær hefðu átt sigurinn fyllilega skilið og óskaði þeim til hamingju með verðskulduð stig. Bart Moran, þjálfari Ásynja, var sáttur með sínar stúlkur eftir leikinn. Hann sagði að þær hefðu átt góðan leik, vörnin hefði verið góð, þær spilað vel saman og stutt hverja aðra. Hann sagði að Sonja í markinu hefði átt mjög góðan leik og að hans mati maður leiksins.