Ásynjur náðu forystunni aftur

Ynjur voru ekki lengi á toppi deildarinnar þar sem Ásynjur komust aftur á toppinn í kvöld þegar þær lögðu Reykjavíkurliðið að velli 12-0. Leikmenn beggja liða komu ákveðnar til leiks en það voru ekki skoruð mörg mörk í fyrstu lotu. Anna Sonja skoraði fyrsta mark Ásynja eftir rúmar sjö mínútur með stoðsendingu frá Söruh. Undir lok lotunnar skoraði svo Alda Ólína annað mark Ásynja með stoðsendingu frá Söruh og Evu. Staðan eftir fyrstu lotu 2-0.

Ásynjur bættu heldur í í annarri lotu og þar hóf Díana leikinn þegar hún skoraði þriðja mark liðsins með stoðsendingu frá Evu. Anna Sonja skoraði næstu tvö mörk, fyrst með stoðsendingu frá Jónínu og Huldu og svo með stoðsendingu frá Birnu og Öldu. Jónína og Anna Sonja áttu svo flott samspil sem endaði með því að Jónína kom pekkinum í markið og staðan 6-0. Jónína skoraði einnig sjöunda mark liðsins, nú með stoðsendingu frá Arndísi og Díönu. Arndís tók þá við og skoraði og síðan Sarah með stoðsendingu frá Öldu. Díana rak smiðshöggið á góðan leikhluta með tíunda marki Ásynja, stoðsending frá Arndísi.

Mótspyrna Reykjavíkurstúlkna var meiri í þriðju lotu og Ásynjum tókst aðeins að skora tvö mörk í lotunni. Það fyrra skoruðu þær í yfirtölu og var það Jónína að verki með stoðsendingu frá Huldu. Lokamark Ásynja skoraði Alda án stoðsendingar á 48. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og fögnuðu Ásynjur 12-0 sigri og komust þar með aftur á topp deildarinnar, stigi fyrir ofan Ynjur. Ásynjur eru með 23 og Ynjur 22 og bæði lið eiga eftir að spila 6 leiki.

Bart Moran þjálfari Ásynja var sáttur eftir leikinn og sagði að leikmennirnir hefðu spilað vel saman sem lið. Þær hefðu stöðugt verið á eftir pekkinum og nýtt sér öll tækifæri sem þær fengu. Þetta hefði verið sigur liðsheildarinnar.

Mörk (stoðsendingar): Anna Sonja 3 (1), Jónína 3 (1), Alda Ólína 2 (2), Díana 2 (1), Sarah 1 (2), Arndís 1 (2), Eva (2), Hulda (2) og Birna (1).