Áramótakveðja

Nú þegar árið 2021 er að líða er vert að skauta stuttlega yfir árið sem er að líða undir lok. Árið 2021 má minnast sem mjög farsæls árs fyrir Skautafélag Akureyrar því sigrar á íþróttasviðinu voru margir og sumir sögulegir. Þrátt fyrir að Covid veiran hafi ávallt staðið á hliðarlínunni þá náðist að halda þorrann af þeim mótum og keppnum sem fyrirhuguð voru á árinu. Það var vissulega þyrnum stráð að halda viðburðum gangandi með síðbreytilegum reglum og takmörkunum svo vert að minnast á framlag starfsfólks og sjálfboðaliða sem taka þátt í starfi félagsins en hafa sýnt ótrúlega þrautseigju og útsjónarsemi til að ná að halda íþróttastarfinu gangandi undir þessum kringumstæðum og gott betur því unnendur íþróttanna fengu að sitja á áhorfendapöllum í flestum tilfellum þó um það giltu einhverjar fjölda- og nálægðartakmarkanir.

Íþróttaárangur Skautafélags Akureyrar árið 2021 getur vart hafa verið betri því félagið vann alla þá titla sem í boði voru á árinu. Íshokkídeild félagsins varð Íslandsmeistari í meistaraflokkum karla og kvenna og unnu deildarmeistaratitlanna en einnig unnust sigrar í öllum yngri flokkum þar sem keppt er til Íslandsmeistara; U18 , U16 og U14 bæði a og b liða. Listhlaupadeild félagsins vann alla þá Íslandsmeistaratitla sem í boði voru; Senior, Junior og Advanced Novice. Á árinu náðust einnig sögulegir áfangar því Aldís Kara Bergsdóttir þeim sögulega árangri að vera fyrst íslenskra skautara til þess að tryggja sér sæti á Evrópumeistaramótinu í lishtlaupi á skautum. Hún stórbætti einnig íslenska stigametið í listhlaupi, bæti í stutta og frjálsa sem og heildarstigafjölda. Íshokkíkonan Silvía Rán Bjögvinsdóttir braut einnig blað í sögu íshokkífólks þegar hún samdi við Göteborg HC í efstu deild Svíþjóðar (SDHL) og varð þar með fyrsti íshokkíleikmaður í sögu Skautafélagsins til þess að komast að hjá liði í einni af sterkustu íshokkídeildum í heimi. Mörgum erlendum viðburðum var frestað í byrjun árs en íþróttafólkið okkar fékk tækifæri á að taka þátt í nokkrum alþjóðlegum mótum á haustmánuðum. Júlía Rós Viðarsdóttir tók þátt í tveimur Grand Prix mótum í Frakklandi í ágúst og náði besta árangri íslenskra skautara í junior flokki á Grand Prix mótaröðinni þegar hún tók þátt í tveimur slíkum í Courchevel í Frakklandi. Aldís Kara Bergsdóttir var svo fyrst íslenskra skautara til að taka þátt í undankeppni ólympíuleika í september auk þess sem hún fór á Nebelhorn Trophy í Þýskalandi og Finlandia Trophy í Espoo í Finnlandi þar sem hún náði áður nefndum lágmörkum á Evrópumótið í listhlaupi sem fer fram árið 2022 í Tallinn í Eistlandi 6.-10. Janúar 2022. SA Víkingar tóku þátt í Continental Cup í september í Vilníus í Litháen og fjölmargar stelpur úr kvennaliði SA tóku þátt í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fór í Notthingham í Bretlandi.

Árið 2021 var nokkuð viðburðarríkt og farsælt í heildina þegar á er litið og má líta björtum augum til ársins sem gengur í garð. Hvað sem veirunni líður og óvissunni sem henni fylgir þá er það mikið fagnaðarefni að Skautafélagið fær langþráða aðstöðubót árið 2022 þegar framkvæmdir hefjast við félags- og æfingaaðstöðu í norðurenda Skautahallarinnar. Þessari framkvæmd hefur verið á teikniborðinu og á framkvæmdaráætlun um margara ára skeið en er nú loks komin í útboðsferli en tilboð verða einmitt opnuð í byrjun janúar 2022 og framkvæmdir hefjast í byrjun maí. Iðkenndur, félagsfólk sem og gestir Skautahallar og Skautafélagsins fá hlýjar móttökur í Skautahöllinni þegar framkvæmdum er lokið en gólfpláss Skautahallarinnar mun með framkvæmdinni stækka um 300 fermetra með æfingarsal, lyftingarsal og félagsrými ásamt lyftu og framreiðslueldhúsi en þess að auki skapast hlý rými og notagildi Skautahallarinnar mun stóraukast og starfið getur haldið áfram að blómstra. Á sama tíma og við kveðjum árið 2021 þá óskar Skautafélag Akureyrar félagsfólki sínu gleðilegs nýs árs og farsældar á árinu 2022.