Anna Sonja og Ómar Smári íshokkífólk ársins

Mynd: Ásgrímur Ágústsson
Mynd: Ásgrímur Ágústsson


Anna Sonja Ágústsdóttir og Ómar Smári Skúlason eru hokkífólk ársins 2012 hjá Skautafélagi Akureyrar. Þau eru bærði 24 ára og voru bekkjarfélagar í fimm ár í Hrafnagilsskóla. Anna Sonja er jafnframt íshokkíkona ársins á Íslandi 2012, valin af ÍHÍ.

Anna Sonja og Ómar Smári voru heiðruð af hokkídeild SA sl. fimmtudag og við það tækifæri tók Ásgrímur Ásgrímsson nokkar myndir - sjá hér.

Anna Sonja Ágústsdóttir varð fyrst kvenna til að verða valin íshokkíkona ársins oftar en einu sinni af ÍHÍ.

Anna Sonja er 24 ára varnarmaður og fyrirliði Ásynja og því bæði deildar- og Íslandsmeistari með Skautafélagi Akureyrar. Hún hefur leikið allan sinn feril með SA að undanskildu einu tímabili þegar hún lék með Malmö Redhawks í Svíþjóð. Hún er af miklu skautafólki komin og hóf að æfa íshokkí sex ára gömul.

Anna Sonja hefur spilað með öllum landsliðum kvenna sem valin hafa verið á Íslandi frá upphafi. Hún er fyrirliði kvennalandsliðsins í íshokkí og hefur á tveimur síðastliðnum heimsmeistaramótum sem liðið hefur tekið þátt í verið valin besti varnarmaður mótsins.

Ómar Smári Skúlason er 24 ára markvörður Skautafélags Akureyrar og sem slíkur leikur hann bæði með Víkingum og Jötnum.

Ómar hefur leikið með öllum þremur landsliðum Íslands, A-landsliðinu, U-20 og U-18 og hefur farið á þrjú Heimsmeistaramót með hverju þeirra. Hann hefur iðkað íshokkí frá 12 ára aldri, eða í 12 ár og spilað með meistaraflokki SA undanfarin ár.

Svo skemmtilega vill til að Ómar Smári og Anna Sonja voru bekkjarfélagar í fimm ár í Hrafnagilsskóla, en upphaf hokkíferils Ómars má einmitt rekja til þess að íþróttin var kynnt fyrir honum og skólafélögum hans. Hann og jafnaldrar hans fóru allir að prófa, en hann er reyndar sá eini þeirra sem er að enn í dag.

Skautafélag Akureyrar óskar Önnu Sonju og Ómari Smára til hamingju.