Aðalfundur Skautafélagsins - ný stjórn

Hin nýja stjórn
Hin nýja stjórn

Aðalfundur  Skautafélagsins  fór fram á fimmtudagskvöldið í Skautahöllinni.  Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf og svo stiklað sé á stóru yfir það sem fram kom á fundinum þá má helst nefna góða árangur deilda á árinu 2011. Margir sigrar unnust í keppnisgreinunum þremur og átti Skautafélagið flesta Íslandsmeistara og flesta landsliðsmenn allra akureyskra íþróttafélaga og fengu viðurkenningar fyrir það í hinu árlega hófi Akureyrarbæjar um áramótin.

Annar ekki síðri eftirtektarverður árangur náðist einnig hjá öllum deildum í rekstri þar sem allar deildir ráku sig með hagnaði og allt utanum hald um fjármál og bókhald er eins og best verður á kosið.

Á árinu fékk Skautafélagið endurnýjun á gæðaviðurkenningu frá Íþrótta og Ólympíusambandi Íslands sem fyrirmyndafélag og erum við afskaplega stolt af því.  Árið var jafnframt það lengsta í sögu þess hvað varðar ístíma því nú var í fyrsta skiptið haldið úti ís í á ellefta mánuð og er þar fyrst og fremst fyrir að þakka dugnaði listhlaupadeildar, en lenging á tímabilinu er henni mjög mikilvægt.

Verkefni á dagskrá aðalstjórnar fyrir þetta árið eru fyrst og fremst endurnýjun rekstrarsamnings við Akureyrarbæ enda hefur rekstur Skautahallarinnar þyngst ár frá ári þar sem allur rekstrarkostnaður hefur hækkað og þá sérstaklega orkukostnaður.   Einnig er kominn tími á viðhald á Skautahöllinni en gólfplatan er á síðasta snúning enda var á sínum tíma byggt yfir gömlu plötuna sem gerð var af duglegum sjálfboðaliðum félagsins árið 1986 og þá af vanefnum.

Í framtíðarplönum félagsins felst fyrst og fremst bætt aðstaða fyrir bæði iðkendur og annað félagsfólk sem og gesti Skautahallarinnar.  Innanhúss er nauðsynlegt að koma upp upphituðu rými þar sem hægt er fylgjast með því sem fram fer á ísnum og þar sem gestir Skautahallarinnar geta hlýjað sér.  Bætt aðstaða fyrir íþróttafólk félagsins fyrir afísæfingar er ekki síður mikilvæg en í dag fara slíkar æfingar fram á göngum, í tröppum og á áhorfendapöllum hallarinnar.

Vinna við nýtt deiliskipulag Innbæjarins hefur staðið yfir og fór það í auglýsingu nú á dögunum.  Við fengum þar lóðina okkar loks staðfesta en í ljós kom að Skautahöllin var ekki skráð með neina lóð. Nú eru lóðamörkin eins og við gerðum ráð fyrir að þau væru, þ.e. við Naustaveg (miðahúsabraut) að vestan og norðan, við Drottnignarbraut að austan og við gróðurbeltið aðsunnanverðu.  Einnig fengum við stækkun á byggingarreit innan lóðarinnar því síðar munum við þurfa að byggja við höllina hús yfir krullu og auka skautasvell.

Á aðalfundinum var kosin ný stjórn, en einungis ein breyting varð á fyrri stjórn.  Aðalstjórn samanstendur af  7 aðilum og þar sitja m.a. formenn allra deilda og hefur það fyrirkomulag reynst vel  og auðveldað öll samskipti innan félagsins.  Stjórnin er þannig skipuð:

Sigurður Sigurðsson – formaður
Helga Margrét Guðjónsdóttir  (formaður listhlaupadeildar)
Hallgrímur Valsson (formaður krulludeildar)
Ólöf Sigurðardóttir (formaður íshokkídeildar)
Dröfn Áslaugdóttir (varaformaður listhlaupadeildar)
Davíð Valsson (varaformaður krulludeildar)
Reynir Sigurðsson (stjórnarmaður í hokkídeild)