Karfan er tóm.
Aðalfundur íshokkídeildar fór fram í gærkvöld í félagssalnum í Skautahöllinni. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf með skýrslu stjórnar um starfsemi deildarinnar á liðnum vetri, skýrsla um rekstur og kosning nýrrar stjórnar.
Í skýrslu íshokkídeildarinnar um starfsemi tímabilsins kom meðal annars fram að fjöldi iðkenda 18 ára og yngri væru nú um 250 talsins en yfir 60 nýir iðkendur bættust við í vetur. Yngstu aldursflokkarnir eru fullsetnir svo ekki hefur verið unnt að auglýsa né halda og námskeið fyrir nýja iðkendur frá því í haust en Sarah Smiley var yfirþjálfari yngri flokka í vetur. Íþróttaárangurinn á tímabilinu var góður þar sem Íslandsmeistaratitlar unnust í meistaraflokki karla, í U18 og U16 en Sheldons Reasbecks var yfirþjálfari þessara flokka. Þetta var fyrsta heila tímabilið með nýju æfingar- og félagsaðstöðunni en hún hefur lyft faglegu starfi deildarinnar í nýjar hæðir og er algjör bylting fyrir starfsemi deildarinnar. Iðkendur, þjálfarar, stjórnar- og starfsfólk allt tók þátt í fræðslu í vetur ásamt fulltrúum annarra deilda félagsins um fordóma og samskipti. Iðkendur útbjuggu samskiptasáttmála fyrir félagið í kjölfar þessarar vinnu og mun sáttmálinn stýra samskiptaviðmiðum í félaginu hér eftir. Starf foreldrafélagsins var öflugt að vanda og er áfram einn af hornsteinum hins öfluga barna- og unglingastarfs deildarinnar. Viðsnúningur varð á rekstri deildarinnar árið 2024 en rekstrarhagnaður var rúmar 5 milljónir þar sem stærstu breytingarnar voru að ársmiðasala, æfingagjöld og styrkir jukust á milli ára.
Ný stjórn var kosinn en Elísabet Inga Ásgrímsdóttir var endurkjörin formaður íshokkídeildarinnar og Sæmundur Leifsson kemur "nýr" inn í stjórn eftir árs fjarveru. Stjórnin skiptir með sér verkum á næsta fundi.
Ný stjórn íshokkídeildar:
Elísabet Inga Ásgrímsdóttir - formaður
Benjamín Davíðsson
Ari Gunnar Ólafsson
Sæmundur Leifsson
Eiríkur Þórðarson
Ólafur Örn Þorgrímsson
Kristján Sturluson
Fráfarandi stjórn var þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf en önnur mál voru engin.