Karfan er tóm.
Íþróttamaður SA 2012 Anna Sonja er íþróttamaður SA og hokkíkona ársins hjá ÍHÍ Anna Sonja Ágústsdóttir er Íþróttmaður Skautafélags Akureyrar 2012. Hún er 24 ára varnarmaður og fyrirliði SA-Ásynja og því bæði deildar- og Íslandsmeistari með Skautafélagi Akureyrar árið 2012. Hún var á árinu jafnframt fyrirliði landsliðs Íslands sem tók þátt í Heimsmeistarakeppni Alþjóða íshokkísambandsins í Seúl í S-Kóreu í apríl. Hún fékk eftir það mót viðurkenningu frá Alþjóða íshokkísambandinu og mótshöldurum sem besti varnarmaður mótsins, annað árið í röð. Anna Sonja hóf að æfa íshokkí þegar hún var 6 ára gömul og hefur allan sinn feril leikið með Skautafélagi Akureyrar að undanskildu einu tímabili þegar hún lék með Malmö Redhawks í Svíþjóð. Hún hefur jafnframt tekið þátt í öllum verknefnum íslenska kvennalandsliðsins síðan það tók fyrst þátt í Heimsmeistaramóti árið 2005. Anna Sonja var einnig heiðruð af Íshokkísambandi Íslands sem íshokkíkona ársins 2012. Anna Sonja er mikill íþróttamaður og heilbrigð fyrirmynd.