Þrír sterkir leikmenn snúa aftur heim í SA

Þrír sterkir leikmenn: Kolbrún Garðarsdóttir, Jakob Jóhannesson og Arnar Kristjánsson
Þrír sterkir leikmenn: Kolbrún Garðarsdóttir, Jakob Jóhannesson og Arnar Kristjánsson

Það er alltaf skemmtilegt þegar uppaldir leikmenn snúa aftur heim til að klæðast rauðu treyjunni. Þrír ungir en gríðarlega sterkir og spennandi leikmenn eru klárir og gera meistaraflokkana okkar enn sterkari í toppbaráttunni fyrir komandi tímabil.

Kolbrún Garðarsdóttir – sóknarmaður #27 – frá Fjölni

Þarf varla að kynna en hún var marka- og stigahæsti leikmaður Toppdeildar kvenna á síðasta tímabili og allra besti leikmaður deildarinnar síðustu ár. Síðustu tvö tímabili hefur hún verið fyrirliði Fjölnis og leitt þær til Íslandsmeistaratitils í bæði skiptin. Kolbrún snýr nú aftur heim í SA og við bíðum spennt eftir að sjá hana aftur á ísnum í SA treyjunni.

Jakob Jóhannesson – markmaður #55 – úr námsleyfi

Jakob snýr aftur heim að sunnan eftir að hafa tekið sér árs námsleyfi frá hokkíinu. Jakob var fyrsti markvörður karlalandsliðsins og með bestu markvörslu deildarinnar um nokkurra ára skeið áður en hann fór í leyfið. Jakob er nú snúin heim og mættur í markið og styrkir markvarðateymi liðsins með Róberti Steingrímssyni. Við hlökkum til sjá Jakob koma sér aftur í gírinn og byrja að loka markinu.

Arnar Kristjánsson – 20 ára varnarmaður #8 – frá EJ Kassel (Þýskalandi)

Arnar Kristjánsson er einn efnilegasti varnarmaður landsins og hefur flakkað á milli þess að spila erlendis og hér heima síðustu ár. Arnar er mjög sóknarsinnaður varnarmaður og er komin með 13 A-landsleiki þrátt fyrir ungan aldur og hefur verið valinn besti varnarmaður heimsmeistaramóta með unglinga- og ungmennalandsliðum Íslands. Arnar mun styrkja varnarlínuna okkar og kemur auk þess með glimrandi sóknarleik sem verður gaman að fylgjast með í vetur.

 

Fyrstu leikirnir framundan
Það verður spennandi að fylgjast með þessum leikmönnum í vetur. Kvennaliðið mætir Fjölni í fyrsta leik tímabilsins laugardag 5. september og leikur síðan fyrsta heimaleik í Skautahöllinni 27. september gegn SR. Karlaliðið hefur leik 13. september gegn Fjölni á útivelli og fyrsta leik á heimavelli 7. október.
Árkortasala hefst á næstu dögum – fylgist með og tryggið ykkur sæti í Skautahöllinni í vetur!