Íslandsmeistarmót í skautaati (short track) var haldið á í Reykjavík um síðustu helgi. Á mótið mætti fríður hópur frá SA og nældu sér allir í verðlaun.
Skautaat er sú grein skautahlaups sem haldin er á stuttri brautu eða á sama ís og listskautar og hokkí. Greinin hefur verið stunduð í Skautafélagi Akureyrar í rúm 3 ár. Á föstudeginum, 28. nóvember, var Erwin, þjálfari í SA, með opna æfingu fyrir SA, Fjölnir, SR, Öspina og aðra áhugasama. Um helgina var svo keppt í 222m, 500m og 1000m sem og 500m og 1000m liðakeppni. Skautahlaupsflokkur SA átti frábæra helgi og alls tóku þau 13 gull verðlaun, 7 silfur og 2 brons með norður.
Í ungmennaflokki kvenna varð Ylva Ísadóra van der Werve Íslandsmeistari í 222m, 500m og 1000m og fékk Anna Sigrún Jóhannesdóttir silfur í þeim vegalengdum. Logi C. F. E. van der Werve varð Íslandsmeistari ungmenna karla í öllum vegalengdum. Logi og Ylva urðu einnig Íslandsmeistarar í 500m og 1000m liðakeppni. Þar tók Þorstein Hjaltason silfur í báðum vegalengdum ásamt Thamar Heijstra frá Fjölni. Anna Sigrún náði i tveimur brons verðlaunum í liðakeppni með hokkísnillingnum Andra Frey Magnússyni sem keppir fyrir Öspina.
Í fullorðinsflokki karla átti SA 2 keppendur og lentu báðir á palli. Erwin van der Werve varð Íslandsmeistari í öllum vegalengdum, 222m, 500m og 1000m og Þorsteinn Hjaltason tryggði sér silfur í öllum vegalengdum eftir hörku keppni. Báðir náðu vel undir 1 mínútu í 500m og þar með inntökukröfu á Masters International Shorttrack Games mótaröðina.