Heilbrigðisteymi SA hlaut hvatningarverðlaun UMFÍ

Jóhann Þór Jónsson tók í gærkvöldi við hvatningarverðlaunum Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) fyrir hönd Heilbrigðisteymis Skautafélags Akureyrar á formannafundi ÍBA í gærkvöld. Hvatningarverðlaunin voru fyrst kynnt á Sambandsþingi UMFÍ í Stykkishólmi í október síðastliðnum. Í tilkynningu UMFÍ kom fram að „Framlag heilbrigðisteymis Skautafélags Akureyrar til öryggis og velferðar iðkenda og gesta í Skautahöllinni á Akureyri er ómetanlegt.“

Heilbrigðisteymið var stofnað haustið 2023 að frumkvæði Jóhanns Þórs Jónssonar, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmanns. Teymið hefur frá fyrsta degi starfað alfarið á sjálfboðaliðagrunni. Í dag eru þar um 14 einstaklingar, flestir foreldrar iðkenda, og allir með starfsreynslu úr heilbrigðisgeiranum – læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamenn og sjúkraliðar.

Á sínum fyrsta vetri sinnti teymið 53 viðburðum og tókst nær undantekningarlaust að manna allar vaktir. Heilbrigðisteymið er á öllum heimaleikjum félagsins, bæði í meistaraflokkum og yngri flokkum, auk þess að sinna helgarmótum og öðrum stórum viðburðum í Skautahöllinni.

Jóhann Þór hélt erindi á formannafundinum þar sem hann kynnti starfsemi teymisins og tók að lokum við verðlaununum fyrir hönd hópsins.

Skautafélagið er afar stolt af þessu öfluga og óeigingjarna heilbrigðisteymi og kann því óendanlegar þakkir fyrir ómetanlegt framlag.