Karfan er tóm.
Í byrjun september buðum við foreldrum og forráðamönnum iðkenda í U14, U16 og U18 á fræðslufyrirlestur um samskipti. Á þessum aldri geta samskipti verið krefjandi og því mikilvægt að ræða þau sérstaklega. Kristín Skjaldardóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, fjallaði um samskipti í ýmsum myndum og hvernig foreldrar geta brugðist við ef ágreiningur kemur upp. Hún ræddi hvernig leysa má úr málum á farsælan hátt, hvaða boðleiðir eru í boði og spurði að lokum hvort við sem foreldrar værum góðar fyrirmyndir í samskiptum.
Einnig bauð Kristín upp á fræðslu fyrir þjálfara og starfsfólk íþróttafélaga. Þar var meðal annars fjallað um samskipti við foreldra og iðkendur. Lagt var áherslu á að þjálfarar hafi bæði rétt og skyldu til að setja mörk, bæði hvað varðar aðgengi foreldra að þeim og varðandi hegðun iðkenda, auk þess að þekkja þær leiðir sem í boði eru til stuðnings.
Slíkar fræðslustundir minna okkur á mikilvæga þætti, gefa nýja vitneskju og skapa samveru sem ýtir undir samtal og styrkir samfélagið okkar í Skautahöllinni.
Góð samskipti eru einn af hornsteinum farsæls félagsstarfs.
Seinna í haust munum við bjóða iðkendum á unglingsaldri upp á dómarafræðslu sem eykur leikskilning þeirra og gerir þá að enn sterkari leikmönnum auk annars konar fræðslu.